Þegar kólna fer í veðri finnst mér fátt betra en heitur grautur í morgunmat. Ég skal alveg vera fyrst til að viðurkenna það að gamli, góði hafragrauturinn getur orðið smá leiðinlegur með tímanum og finnst mér því mikilvægt að breyta stundum til. Þessir tveir grautar – stálsleginn hafragrautur með eplum og kanil og kínóagrautur með súkkulaði og steiktum banana – eru bráðhollir og bragðgóðir og henta bæði vel hversdags og á tyllidögum.
Mér finnst stálsleginn hafragrautur með kanil og eplum verulega jólalegur og ég ætla að borða hann í morgunmat á aðfangadag. Súkkulaði quinoagrauturinn er ekki síður hátíðlegur en dásamlegt súkkulaðibragðið í bland við kanil og mýktina frá avókadóinu gefur góða blöndu.
Kornið (fræið) kínóa er sannkölluð ofurfæða. Kínóa er mikið notað í hvers kyns matargerð og virkar það vel sem meðlæti (líkt og hrísgrjón) eða hreinlega sem uppistaða í máltíð vegna þess hve næringarríkt það er. Kínóa er verulega prótínríkt en það inniheldur 12-18% prótín og allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar – það flokkast því sem fullkomið prótín. Kínóa hentar einnnig vel þeim sem eru með glúteinóþol því það er glúteinlaust. Þar að auki er það ríkt af steinefnum og vítamínum. Kínóa hefur um 15 mín suðutíma en mikilvægt er að skola kornin áður en þau eru soðin til að losna við biturt bragð af húðinni. Kínóa dregur í sig mikið vatn við suðu svo mikilvægt er að fylgjast vel með og bæta við vökva eftir þörfum.
Stálslegnir hafrar eru svipaðir venjulegum höfrum að bragði og næringargildi en þeir eru hollari að því leitinu til að stálslegnir hafrar eru talsvert minna unnir og því tormeltari. Næringin úr þeim er því enn hægvirkari en í hefðbundnum höfrum og dugar orkan úr slíkum hafragraut því langt fram eftir degi – þeir hafa semsagt lágan sykurstuðul. Hafrar eru stútfullir af trefjum, járni, prótíni, andoxunarefnum og vítamínum og hafa margs konar jákvæð heilsufarsleg áhrif. Stálslegnir hafrar eru náttúrulega glúteinlausir (en geta stundum smitast í verksmiðju). Fyrst og fremst finnst mér áferðin á stálslegnum höfrum þó betri en af hefðbundnum höfrum og kýs ég því stálsleginn hafragraut þegar ég vil gera vel við mig. Stálslegnir hafrar hafa lengri eldunartíma en hefðbundnir hafrar en með því að leggja þá í bleyti kvöldið áður er hægt að stytta eldunartímann. Stálslegnir hafrar fást t.d. í Veganbúðinni.
Í grautana nota ég prótínduftin frá Plantforce sem fást í Uglan Heilsuvörur og Hagkaupsverslunum. Ég smakkaði prótínduftin á kynningarfundi Veganúar í fyrra og varð strax forfallinn aðdáandi. Eftir það fór ég í samstarf við Uglan Heilsuvörur sem flytja prótínduftin til landsins. Duftin eru vegan, glúteinlaus, laus við soja og hrá. Þau eru eingöngu með náttúrulegum bragðefnum og bragðbætt með stevíu og henta því vel þeim sem eru að sleppa sykri. Þar fyrir utan þá bragðast þau dásamlega. Í þessari uppskrift nota ég vanilluprótínið, en það er í uppáhaldi hjá mér, og súkkulaðiprótínið sem er ekki síður dásamlegt. Einnig má fá prótínið með berjabragði og hreint (bragðlaust).
Í stálslegna grautinn nota ég vanilluprótín, kanil og epli og toppa hann með möndluprótíni, hlynsýrópi og pekanhnetum. Kínóagrauturinn inniheldur súkkulaðiprótín, kakóduft, kanil og avókadó og er toppaður með súkkulaðihnetusmjöri, ristuðum kókosflögum og steiktum banana (steiktur banani er algjört life-hack en ég sker banana langsum og steiki upp úr vegan smjöri og hlynsýrópi þar til karamelluhúð myndast). Grautarnir eru báðir gríðarlega hollir, mettandi og bragðgóðir og ég mæli með að prófa!
Færslan er unnin í samstarfi við Uglan Heilsuvörur.