Prótínkaffi

Í fyrravetur mættum við pabbi tvisvar í viku á innihjólaæfingar vegna þríþrautaræfinga hjá Ægi3. Æfingarnar voru haldnar í húsnæði CrossFit Reykjavík og til að verðlauna okkur eftir langa og sveitta æfingu keyptum við okkur gjarnan þeytinga (smoothies) sem voru útbúnir á staðnum. Þar fékk pabbi sér alltaf drykk sem var gerður úr kaffi, súkkulaðiprótíni, pekanhnetum og klökum. Þetta var eiginlega hinn fullkomni morgundrykkur eftir æfingu. Ég komst fljótt að því að það gengi ekki að þurfa alltaf að kaupa svona drykki dýrum dómum og ákvað að útbúa svona sjálf, fyrir mig og pabba. Viti menn, það er sáraeinfalt, fljótlegt og bragðast jafnvel bara betur.

 

 

 

Ég nota vegan súkkulaðiprótín sem ég kaupi hjá Sportlíf í Glæsibæ en mér finnst það eitt besta prótínduftið á markaðnum (og ég hef prófað mörg). Prótínið er gert úr ertubaunum (peas) og er glúteinlaust. Fyrir þá sem eru að leita sér að vegan prótíndufti (eða bara prótíndufti yfir höfuð) þá mæli ég með þessu.

Í drykkinn set ég oftast hnetusmjör en vel má setja t.d. möndlusmjör eða matskeið af pekanhnetum. Drykkinn má síðan gera matarmeiri með því að setja banana út í. Einnig er gott að setja kakóduft en þá fæst meira súkkulaðibragð. Ef prótínkaffið er tekið með í skóla eða vinnu mæli ég með að setja klaka út í ferðamálið en drykkurinn er bestur ískaldur. Mér finnst þetta frábær drykkur til að koma sér í gírinn eftir hressilega morgunæfingu en bragðgóð samblanda koffíns, hollrar fitu og prótíns getur ekki klikkað.


Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1-2 dl kaffi
  • 1 msk hnetusmjör
  • 1 skeið súkkulaðiprótínduft
  • 2 dl klakar

Aðferð:

  • 1)

    Setjið öll hráefnin í blandara og blandið þar til þunnfljótandi.

  • 2)

    Berist fram ískalt með klökum.

Gott að hafa í huga:

  • Gott er að bæta banana og kakódufti út í fyrir matarmeiri drykk.
  • Hnetusmjöri má skipta út fyrir t.d. möndlusmjör eða hvers kyns hnetur

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift