Frá því ég var lítil hefur slátur alltaf verið einn uppáhaldsmaturinn minn. Ég saknaði þess þó ekkert sérstaklega eftir að ég varð vegan. Það breyttist þó þegar ég varð ólétt og skyndilega varð ég að fá slátur. Eins og svo oft áður fórum við mamma af stað í tilraunamennsku og úr varð þessi dásamlega uppskrift sem kemur verulega á óvart.
Kátur er nafnið sem við völdum fyrir vegan slátur því allir eru kátir, dýrin sem sleppa við sláturhúsið og mannfólkið sem getur borðað góðan mat.
Uppskriftin að blóðmörinni kemur úr tilraunaeldhúsi mömmu en uppskriftin að lifrarpylsunni er fengin með smávægilegum breytingum úr facebook hópnum Vegan Ísland (takk, Ásthildur og Claus). Uppistaðan í báðum káturkeppunum eru baunir, rúgmjöl og blómkál. Til að fá litinn og járnbragðið í blóðmörinn eru notaðar rauðrófur og spínat (mæli einnig með að nota örlítið af floradix, vegan járnmixtúru) en í lifrarpylsuna eru notaðir blandaðir sveppir eða villisveppir (hægt að kaupa frosna eða þurrkaða). Kókosolía gefur fitu í uppskriftina og heldur hráefnunum saman en blómkálið myndar mörinn (fitubitana) sem einkennir einmitt hefðbundið slátur. Við prófuðum ýmsar leiðir við að elda kátrið, svo sem að sjóða það í pokum og baka í sílíkon-muffinsformum. Það sem kom langbest út var að baka kátrið í brauðformi eða álformi og loka að ofan með bökunarpappír. Þá myndast stór hleifur sem hægt er að skera niður í sneiðar eins og sjá má á myndunum.
Mér finnst kátur best með kartöflum og uppstúf en lifrarpylsan bragðast einnig vel með grjónagraut. Búið er að prófa uppskriftina á fjölbreyttum markhópi (allt frá unglingsdrengjum og óléttum stúlkum yfir í briddsklúbbinn hans pabba) og vekur hún mikla lukku í hvert sinn.
Verði ykkur að góðu!
2 Comments
Atli
03/30/2020 at 1:55 pm
Uppskriftin dugar í mun meira en eins lítra form, er þetta tvöföld uppskrift?
Grænkerar
05/12/2020 at 10:06 am
Við höfum bakað það í ýmsum formum: stóru brauðformi, smærri álformum og svo sílíkon-möffinsformum.
Uppskriftin er nokkuð stór, jú 🙂