Mér finnst fátt skemmtilegra en að útbúa minn eigin vegan ost. Kasjúhnetur eru uppistaðan í heimagerðu ostunum mínum en þegar þær eru settar í blender ásamt vökva verður úr silkimjúkt mauk. Osturinn fær hins vegar bragð sitt úr næringargeri, sítrónusafa, og hlynsýrópi. Galdrahráefnið er síðan hið furðulega efni agar-agar. Þegar hráefnin fyrir ostinn eru sett í blandara verður úr silkimjúkt mauk sem bragðast svipað og ostur. Þegar osturinn er hins vegar kældur stífnar hann og fær unaðslega áferð.
Agar-agar er efni sem er unnið úr sjávarþara og var uppgötvað í Japan fyrir hálfri öld. Þetta ljósa duft er lyktar- og bragðlaust og virkar frábærlega sem vegan þykkingarefni eða matarlím. Ég kaupi agar-agar í heilsuhúsinu en hægt er að velja um flögur eða duft. Duftið er örlítið dýrara en það þarf mun minna af því og er það þægilegra í meðferð, ég mæli því með duftinu. Mikilvægt er að blanda duftinu við vökva og hita að suðu til að virkja efnið.
Að neðan er einnig uppskrift að heimagerðri chili-sultu. Ég smakkaði heimagerða chili-sultu fyrst fyrir um ári síðan og hef verið sjúk í hana síðan þá. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að eiga alltaf til a.m.k. eina krukku af chili-sultu í ísskápnum. Í sultuna er líka notað agar-agar en einnig mætti nota sultuhleypi (pektín). Sultan er gerð úr ferskum chiliávöxtum og rauðum og appelsínugulum paprikum. Ég nota hrásykur í þessari uppskrift en næst langar mig að prófa að minnka magn sykurs enn meira og nota t.d. stevíu á móti.
1 Comments
Iris
01/08/2021 at 11:49 am
Hæ, líst rosalega vel á þennan ost og ætla að prufa um leið og ég kaupi agar agar. Veistu ca. Hvað hann geymist lengi í kæli og heldurðu að það sé hægt að frysta hann?