Döðlur fylltar með hnetusmjöri eru frábærar sem millimál þegar sætindaþörfin gerir vart við sig. Þessi ofureinfaldi réttur er með hollri fitu úr hnetusmjörinu og náttúrulegri sætu úr döðlunum. Þessi uppskrift er því sykurlaus, vegan og glútenlaus en ekki síst bráðholl og mettandi.
Mikilvægt er að nota ferskar döðlur en mér finnst medjool döðlur bestar. Það er hægt að gera uppskriftina með þurrkuðum döðlum en það kemur ekki jafn vel út.
Einnig er mikilvægt að velja hnetusmjörið vel og þá er best að velja það hnetusmjör sem hefur fæst innihaldsefni og engan viðbættan sykur. Ég nota oftast hnetusmjörið frá Whole Earth (crunchy eða smooth). Fyrir þá sem eru ekki hrifnir af hnetusmjöri mætti vel setja t.d. möndlusmjör eða súkkulaðismjör inn í döðlurnar. Einnig kemur vel út að setja heilar möndlur eða pekanhnetur inn í svona döðlur.
Ég kynntist hnetusmjörsfylltum döðlum af þessu tagi fyrst hjá konu frænda míns en hún átti reglulega til um 10 stk af svona döðlum og geymdi í ísskápnum. Þær voru eflaust hugsaðar fyrir börnin hennar þrjú en enduðu hins vegar flestar í maganum mínum.
Fyrir þá sem hafa meiri sjálfsstjórn en ég er frábært að eiga svona döðlur til í ísskápnum. Það er þægilegt að geta bætt þeim í nestisbox á morgnana, gripið með sér á ferðinni, eða nartað í á kvöldin.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson