Bökuð ostakaka með berjatoppi er fullkomin haustkaka, og frábær leið til að nýta berin sem þið tínduð (vonandi) í berjamó í haust. Ég hef einnig gert kökuna með frosnum hindberjum og það kemur ekki síður vel út. Ég er búin að vinna í þessari uppskrift í smá tíma og þróa hana þannig að hún sé fullkomin. Botninn er úr hnetum, döðlum og höfrum og passar fullkomlega fyrir stjörnu uppskriftarinnar – fyllinguna. Fyllingin er þétt og mjúk og bragðast af rjómaosti og sítrónuberki. Allt er þetta svo toppað með berjum og bakað í ofni. Niðurstaðan er hreint út sagt mögnuð!
Kakan tekur smá tíma þar sem hún er bökuð og þarf svo langan tíma til að kólna og stífna fyllilega svo ég mæli með að útbúa hana daginn áður en hún er borin fram eða snemma dags og bera fram að kvöldi. Toppinn má svo leika sér með og skipta bláberjum t.d. út fyrir hindber. Einnig má baka kökuna án bláberjatopps og bera kökuna t.d. fram með berjasósu eða toppa hana með ferskum berjum.
Verði ykkur að góðu!