Bökuð ostakaka með berjatoppi

Bökuð ostakaka með berjatoppi er fullkomin haustkaka, og frábær leið til að nýta berin sem þið tínduð (vonandi) í berjamó í haust. Ég hef einnig gert kökuna með frosnum hindberjum og það kemur ekki síður vel út. Ég er búin að vinna í þessari uppskrift í smá tíma og þróa hana þannig að hún sé fullkomin. Botninn er úr hnetum, döðlum og höfrum og passar fullkomlega fyrir stjörnu uppskriftarinnar – fyllinguna. Fyllingin er þétt og mjúk og bragðast af rjómaosti og sítrónuberki. Allt er þetta svo toppað með berjum og bakað í ofni. Niðurstaðan er hreint út sagt mögnuð!

 

Kakan tekur smá tíma þar sem hún er bökuð og þarf svo langan tíma til að kólna og stífna fyllilega svo ég mæli með að útbúa hana daginn áður en hún er borin fram eða snemma dags og bera fram að kvöldi. Toppinn má svo leika sér með og skipta bláberjum t.d. út fyrir hindber. Einnig má baka kökuna án bláberjatopps og bera kökuna t.d. fram með berjasósu eða toppa hana með ferskum berjum.

Verði ykkur að góðu!

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 2 dl döðlur
  • 2 dl möndlur
  • 2 dl haframjöl
  • 1 dl bráðin bragð- og lyktarlaus kókosolía
  • 1 tsk. salt

Fylling:

  • 400 ml þykk kókosmjólk í dós
  • 1 dl kókossykur/hrásykur
  • 1 dl bragð- og lyktarlaus kókosolía
  • 2 dl möndlumjólk
  • 3/4 dl. maísmjöl
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 1 dl kókosolía
  • börkur af 1/2 sítrónu, eða lime
  • 3 msk. sítrónusafi, eða limesafi
  • 1 dolla Oatly rjómaostur

Berjatoppur:

  • 300 g ber, fersk eða frosin

Aðferð:

Fylling:

  • 1)

    Byrjið á fyllingunni. Setjið kókosmjólkina í pott ásamt kókossykrinum/hrásykrinum og kókosolíunni og hitið.

  • 2)

    Hrærið/hristið saman möndlumjólk og maísmjölið. Hellið rólega út í heita kókosmjólkina og hrærið vel á meðan þar til blandan hefur þykknað.

  • 3)

    Bætið vanilludropum, sítrónusafa og sítrónu saman við. Setjið blönduna inn í kæli á meðan botninn er útbúinn.

Botn:

  • 1)

    Setjið döðlurnar, möndlurnar og hafrana saman í matvinnsluvél og malið vel.

  • 2)

    Bætið bráðinni kókosolíu saman við ásamt saltinu og blandið áfram, eða þar til deigið klessist milli fingranna.

  • 3)

    Þrýstið deiginu ofan í 20cm smjörpappírsklætt smelluform þannig að það nái um 4-5 cm upp á kantana.

Samsetning:

  • 1)

    Þegar fyllingin er orðin köld skal þeyta rjómaostinn í hrærivél. Hellið fyllingunni rólega saman við og þeytið áfram í nokkrar mínútur.

  • 2)

    Hellið fyllingunni nú yfir botninn og bakið við 180° blástur í 30 mín með álpappír yfir forminu. Setjið þá fersku berin yfir kökuna, fjarlægið álpappírinn og bakið í 30 mín til viðbótar.

  • 3)

    Leyfið kökunni að kólna alveg svo fyllingin stífni áður en hún er borin fram.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift