Kókos-karrý núðluréttur

Seinustu helgi fór ég á bændamarkað Krónunnar og var virkilega glöð að sjá nýupptekið, umbúðalaust blaðkál (e. bok choy/pak choi) en þetta fagurgræna kál sem vex í litlum knippum er mikið notað í asískri matargerð. Mér finnst svo frábært að þetta sé ræktað hérlendis en ég er orðin sjúk í það. Kálið er einfalt að matreiða en best finnst mér að skera það langsum í fernt og snöggsteikja eða sjóða það í skamma stund, svo sem fyrir grænmetis- eða núðlusúpur.

Í réttinn nota ég helling af grænmeti en þar leika aðalhlutverk blaðkál, brokkólí, gulrætur og paprika. Með því að snöggsteikja grænmetið fær það skarpa, bjarta liti og mýkist örlítið en heldur þó smá stökkleika og passar fullkomlega með mjúkum og rjómakenndum kókos-karrýnúðlunum. Mér finnst best að nota hrísgrjónanúðlur en þær eru glútenlausar og virkilega bragðgóðar. Punkturinn yfir i-ið eru síðan ristaðar kasjúhnetur sem gefa réttinum milt, jarðarbragð (e. earthiness). Ég hef eldað þessa máltíð oftar en ég þori að viðurkenna síðastliðinn mánuð og hún er alltaf jafn vinsæl.

Verði ykkur að góðu!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

 

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir 4):

Kókos-karrý núðlur:

  • 150-200 g hrísgrjónanúðlur, t.d. Thai Choise
  • 1 dós kókosmjólk í dós, þykk
  • 1/2 hvítur laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2-3 cm engiferrót
  • 1 fræhreinsað, ferskt chili, má sleppa
  • 1 tsk. karrýkrydd, ég nota karry de lux
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1 msk. soja sósa
  • 1-2 tsk. sriracha sósa, má sleppa
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • 1,5 dl kasjúhnetur

Snöggsteikt grænmeti:

  • 1 msk. sesamolía
  • örlítið flögusalt
  • 3-4 stk. blaðkál
  • 1 stórt brokkólí
  • 1 rauð paprika
  • 200 g gulrætur
  • handfylli ferskt kóríander

Aðferð:

  • Saxið laukinn smátt og steikið í potti við miðlungsháan hita upp úr bragðlausri olíu ásamt hvítlauk, engifer og ferskum chili. Bætið karrý kryddinu saman við og steikið í nokkrar mínútur.

  • Þegar laukurinn hefur mýkst má bæta kókosmjólkinni saman við ásamt grænmetistening, sojasósu, sriracha sósu, sítrónusafa og hlynsýrópi.

  • Meðan sósan mallar eru kasjúhneturnar settar á pönnu (án olíu) og þurrristaðar þar til þær eru gullnar.  Setjið hneturnar til hliðar.

  • Undirbúið nú grænmetið. Skerið blaðkálið langsum í fernt, skerið gulræturnar í strimla (til dæmis með ostaskera), skerið paprikuna einnig í strimla og brokkólíið í lítil blóm.

  • Hitið pönnu með sesamolíu og snöggsteikið grænmetið þar til það er mjúkt að utan en örlítið stökkt innst. Stráið smá salti yfir.

  • Á meðan grænmetið steikist eru núðlurnar eldaðar. Bætið 2-3 dl af vatni saman við karrýsósuna og náið upp suðu. Setjið núðlurnar út í og eldið samkvæmt leiðbeiningum þar til þær eru mjúkar.

  • Blandið nú saman karrý-kókosnúðlunum, kasjúhnetunum og grænmetinu í stóra skál. Toppið með fersku kóríander.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift