Seinustu helgi fór ég á bændamarkað Krónunnar og var virkilega glöð að sjá nýupptekið, umbúðalaust blaðkál (e. bok choy/pak choi) en þetta fagurgræna kál sem vex í litlum knippum er mikið notað í asískri matargerð. Mér finnst svo frábært að þetta sé ræktað hérlendis en ég er orðin sjúk í það. Kálið er einfalt að matreiða en best finnst mér að skera það langsum í fernt og snöggsteikja eða sjóða það í skamma stund, svo sem fyrir grænmetis- eða núðlusúpur.
Í réttinn nota ég helling af grænmeti en þar leika aðalhlutverk blaðkál, brokkólí, gulrætur og paprika. Með því að snöggsteikja grænmetið fær það skarpa, bjarta liti og mýkist örlítið en heldur þó smá stökkleika og passar fullkomlega með mjúkum og rjómakenndum kókos-karrýnúðlunum. Mér finnst best að nota hrísgrjónanúðlur en þær eru glútenlausar og virkilega bragðgóðar. Punkturinn yfir i-ið eru síðan ristaðar kasjúhnetur sem gefa réttinum milt, jarðarbragð (e. earthiness). Ég hef eldað þessa máltíð oftar en ég þori að viðurkenna síðastliðinn mánuð og hún er alltaf jafn vinsæl.
Verði ykkur að góðu!
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna