Truflaðar súkkulaðitrufflur

Dásamlegar vegan súkkulaðitrufflur sem bráðna í munninum. Mér finnst frábært að eiga þessar trufflur til í ísskáp eða frysti til að eiga með kaffinu yfir hátíðirnar eða sem heimagerð jólagjöf fyrir vini og ættingja.

Í uppskriftina nota ég silken tófú sem er sérstök tegund af tófú og gefur trufflunum silkimjúka áferð en einnig hollustu og prótín án þess að það komi niður á bragðinu. Ég notaði 56% súkkulaði í trufflurnar en vel má nota ljósara eða dekkra súkkulaði. Prófið að bæta einu espresso-skoti út í blönduna fyrir dásamlegar súkkulaðitrufflur með kaffibragði.

Ég velti trufflunum upp úr kakódufti en næst langar mig að dýfa þeim í dökkt súkkulaði og toppa þær jafnvel með grófu salti eða hnetumulningi.

 

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 300 g súkkulaði
  • 100 g vegan smjör
  • 1 dl kakósmjör, má skipta út fyrir vegan smjör
  • 300 g silken tofu, vatnið sigtað frá
  • örlítið salt
  • 1 dl kakóduft, til að velta kúlunum upp úr

Aðferð:

  • Bræðið suðusúkkulaði, vegan smjör og kakósmjör í potti við vægan hita.

  • Setjið súkkulaðiblönduna í blandara ásamt tófúinu og saltinu og blandið þar til silkimjúkt.

  • Setjið blönduna í lokað ílát og kælið inni í ísskáp í 2-3 klst. eða þar til blandan hefur stífnað

  • Mótið litlar kúlur úr blöndunni og veltið þeim upp úr kakódufti. Raðið trufflunum í box og geymið í kæli eða frysti.

Annað:

Trufflurnar eru bestar ef þær hafa fengið að mýkjast í smá stund við stofuhita eftir að þær eru teknar út úr kæli.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift