Þessi uppskrift kemur upprunalega frá unnusta mínum en þetta var um það bil það eina sem hann kunni að elda þegar við kynntumst. Rétturinn þarfnast ekki flókinna eldhústækja eða mikils pláss og er því hentug í litlum eldhúsum. Hráefnalistinn er stuttur og einfaldur og er bæði ódýrt og þægilegt að versla inn í þennan rétt. Uppskriftin er virkilega einföld en ótrúlega bragðgóð sem veldur því að þetta er go-to réttur á okkar heimili: fullkominn fyrir stórt matarboð en líka fyrir mánudagskvöld þegar hvorugt okkar nennir að elda.
Avókadó eru meginuppistaðan í lárperumauki en þessi mjúki, fituríki ávöxtur er með því hollara sem hægt er að láta ofan í sig. Avókadó eru full af hollri fitu en þau eru líka verulega prótínrík miðað við ávexti. Fyrir þá sem kjósa lágkolvetnafæði eru avókadó frábær en þau eru mjög kolvetnasnauð. Ég vil helst alltaf eiga til avókadó á heimilinu því ég nota þau svo mikið í matargerð eða nýti þau í mettandi millimál, t.d. á brauð eða hrökkkex.
Hakkblandan er frábær á tortillu en einnig dásamleg sem prótínrík og holl ídýfa fyrir flögur. Þá bæti ég meiri salsa sósu út í hakkið og ber fram heitt með flögum. Lárperumaukið kemur að sjálfsögðu einnig frábærlega út sem ídýfa fyrir flögur.
Hakkblandan er ekki síðri köld og elda ég því oft mikið magn af henni og á til í ísskápnum. Þá er hægt að skella í fljótlegan og hollan hádegisverð eða taka með tortillu í nesti.
Verði ykkur að góðu!