Þessi vegan útgáfa af rjómalöguðu sveppapasta með beikoni slær svo sannarlega í gegn og ég mæli með að allir pastaunnendur prófi. Rétturinn samanstendur af soðnu pasta, rjóma-sveppasósu og beikonkrydduðum kjúklingabaunum. Sáraeinfalt en dásamlega bragðgott.
Fyrir þá sem vilja bæta enn meira prótíni í máltíðina mæli ég með að nota sojapasta (fæst t.d. í Veganbúðinni) en þannig má auka prótín og minnka kolvetni máltíðarinnar. Fyrir okkur sem elskum kolvetni er hins vegar fínt að halda sig við heilhveitipasta.
Með því að steikja hvítlauk, lauk og stórskorna sveppi saman draga sveppirnir í sig bragðið úr lauknum og verða dásamlega mjúkir og bragðgóðir. Kasjúhneturnar ásamt vatni, sítrónusafa og næringargeri í blender mynda þykka sósu með hnetu-ostakeim sem veitir sósunni gott bragð og holla fitu. Oatly smurosturinn gefur svo hefðbundið rjómaostabragð sem fullkomnar réttinn. Fyrir þá sem vilja gera extra vel við sig má bæta skvettu af vegan hvítvíni út í sósuna.
Beikonkrydduðu kjúklingabaunirnar eru frábær viðbót við réttinn en þær eru stökkar og gefa salt-sætt bragð með beikonkeimi sem passar vel við mjúka sveppasósuna. Ég hef aldrei notað beikonkrydd áður og leist satt að segja ekkert á það fyrst, en þvílíkt undur! Með því að krydda baunirnar vel, salta örlítið og bæta hlynsýrópi við fæst bragð sem minnir sannarlega á beikon.
Verði ykkur að góðu!