Rauðrófuhummus og túrmerikhummus

Mér finnst fátt betra en heimagerður hummus. Það er svo ótrúlega einfalt, ódýrt og fljótlegt að búa til sinn eigin hummus. Ég er nú þegar með uppskrift af hefðbundnum hummus  og grænkálshummus á síðunni en ákvað núna að breyta aðeins og prófa að gera rauðrófuhummus og túrmerikhummus. Það heppnaðist ekkert smá vel og ég mun klárlega gera fleiri tilraunir með hummus á næstunni. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að borða litríkan mat og það skemmir ekki fyrir að hann sé heimagerður og bráðhollur.

 

 

 

Rauðrófur hafa fylgt mannkyninu í fjölda ára en vinsældir þeirra hafa aukist verulega undanfarið vegna heilsusamlegra eiginleika þeirra. Þetta dökkrauða rótargrænmeti á að geta lækkað blóðþrýsting, aukið þol og úthald og barist gegn bólgum í líkamanum. Rauðrófur eru einnig stútfullar af trefjum, vítamínum og steinefni. Þær innihalda einnig mikið af fólíni sem getur hægt á öldrunareinkennum. Einnig geta rauðrófur bætt meltingu og hjálpað til við að hreinsa meltingarkerfið. Ég notaði ferskar rauðrófur og rauðrófuduft í hummusinn en vel má nota annaðhvort.

 

 

 

Margir kannast eflaust við litinn og ilminn af túrmeriki en þetta krydd gefur karrýblöndunni gula litinn. Virka efnið í túrmeriki er Curcumin en það er gríðarlega öflugt andoxunarefni. Mikilvægt er að neyta túrmeriks með svörtum pipar því hann eykur upptöku á curcumin verulega. Túrmerik getur lækkað slæma kólestrólið og komið í veg fyrir blóðtappa. Það getur einnig unnið gegn ýmsum heilasjúkdómum svo sem Alzheimer. Túrmerik er gríðarlega bólgueyðandi en langvarandi bólgur í líkamanum geta verið uppspretta margra sjúkdóma, þar á meðal krabbameins. Túrmerik er því öflugt þegar kemur að því að fyrirbyggja og jafnvel meðhöndla krabbamein. Túrmerik má kaupa í duftformi, bæði í heilsuverslunum og kryddhillum, en einnig fæst rótin fersk í helstu matvöruverslunum. Mér finnst best að nota bæði duft og ferska rót, en vel má nota annaðhvort.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Rauðrófuhummus:

  • 1 dós kjúklingabaunir, ásamt ca. fjórðungi af safanum
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 1 msk hvítt tahini
  • 2 msk rauðrófuduft, má sleppa
  • 2 dl rauðrófa, soðin
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og pipar
  • cayanne piparr

Túrmerikhummus:

  • 1 dós kjúklingabaunir, ásamt ca. fjórðungi af safanum
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1-2 hvítlauksgeirar, perssaðir
  • 1 msk hvítt tahini
  • 1 tsk ferskt engifer, rifið smátt
  • 1 tsk ferskt túrmerik, rifið smátt
  • 1/2 tsk túrmerikduft, má sleppa
  • 1/2-1 tsk hlynsýróp, eða 2 ferskar döðlur
  • 1/2 dl ólífuolía
  • salt og svartur pipar
  • cayanne pipar

Aðferð:

Rauðrófuhummus:

  • Skerið ferska rauðrófu í teninga og sjóðið þar til hún er mjúk í gegn.

  • Setjið sítrónusafa, tahini og kjúklingabaunir (ásamt fjórðungi af safanum)  í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt.

  • Bætið því næst hinum hráefnunum út í en geymið helminginn af ólífuolíunni. Blandið saman í nokkrar sek. Ef erfitt er að ná mjúkri áferð getur hjálpað að bæta við örlitlu vatni.

  • Setjið hummusinn í skál og hellið afgangnum af ólífuolíunni yfir.

Túrmerikhummus:

  • Setjið sítrónusafa, tahini og kjúklingabaunir (ásamt fjórðungi af safanum)  í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt.

  • Bætið því næst hinum hráefnunum út í en geymið helminginn af ólífuolíunni. Blandið saman í nokkrar sek. Ef erfitt er að ná mjúkri áferð getur hjálpað að bæta við örlitlu vatni.

  • Setjið hummusinn í skál og hellið afgangnum af ólífuolíunni yfir.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift