Saltkaramellu nicecream

Þessi saltkaramellu nicecream með hnetusmjöri er einhver sá allra besti sem ég hef gert. Hann er svo djúsí og bragðgóður að hann sæmir sér vel sem eftirréttur en hins vegar er hann bráðhollur svo hann má líka alveg vera í morgunmat. Hráefnalistinn er stuttur og ísinn er vegan, glúteinlaus, laus við hvítan sykur og stútfullur af hollri fitu, trefjum og prótíni.

 

Uppistaðan í ísnum eru frosnir bananar en þegar frosnir bananar eru malaðir í matvinnsluvél eða öflugum blender verður úr ótrúlega léttur, ljós og creamy bananaís. Á ensku er þessi tegund af ís (þar sem bananar eru uppistaðan) kölluð nicecream. Athugið þó að ekki allar vélar ráða við frosna banana og getur þá verið sniðugt að leyfa þeim að þiðna aðeins og bæta jafnvel við vökva á móti. Áferðin verður ekki alveg eins skemmtileg en bragðið ljúffengt.

 

 

Ásamt frosnu banönunum nota ég kókosmjólk í dós en mér finnst hún gefa ísnum enn meiri mýkt og betra bragð. Einnig nota ég ferskar döðlur, hnetusmjör og örlítið salt. Fyrir þá sem eru ekki hrifnir af hnetusmjöri mæli ég með að setja möndlusmjör í staðinn, en það ætti að koma mjög vel út. Uppskriftin hér að neðan nægir fyrir tvo til þrjá.

 

Bananar innihalda fjölda vítamína og steinefna ásamt pektíni sem er gott fyrir meltinguna. Hnetusmjör er gríðarlega næringarríkt og mettandi en það inniheldur mikið af hollri fitu og prótíni. Döðlur eru næringarríkar og innihalda mikið magn trefja, vítamína og meira að segja andoxunarefna.

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 3 frosnir bananar
  • 4-6 ferskar döðlur
  • 1/2 dl hnetusmjör
  • 1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • salt

Aðferð:

  • Leyfið banönunum að þiðna í nokkrar mínútur til að hlífa matvinnsluvélinni/blendernum.

  • Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél/blender og blandið þar til silkimjúkt. Ef illa gengur að blanda gæti þurft meiri vökva (það fer eftir tækjum).

  • Setjið blönduna í skálar og skreytið að vild, t.d. með hnetusmjöri, söxuðu súkkulaði, granóla, hnetum eða kókosflögum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift