Jarðarberjaostakaka

Þessi fagurbleika, vegan jarðarberjaostakaka var mín fyrsta vel heppnaða tilraun til að gera vegan ostaköku.  Með því að nota kasjúhnetur og vegan rjómaost fæst mjúka, ostakennda áferðin sem einkennir hefðbundnar ostakökur en er þessi kaka léttari og fer betur í maga. Hún er fersk, holl, bragðgóð og falleg og ekki skemmir fyrir hvað það er ótrúlega auðvelt að búa hana til. Hún slær því hefðbundnum ostakökum við á öllum sviðum að mínu mati. Uppskriftin er glútenlaus, laus við hvítan sykur og auðvelt er að breyta kökunni í hráfæðis- og paleo köku með því að sleppa rjómaostinum (Oatly smurostinum).

 

 

Í flestum sambærilegum uppskriftum er talað um að láta kasjúhnetur liggja í bleyti í fleiri klukkustundir eða yfir nótt. Ég hef persónulega aldrei haft þolinmæði í það og set þær því vanalega beint í blender ásamt örlitlu vatni. Það tekur örlítið lengri tíma að ná silkimjúkri áferð en annars finn ég engan mun.

 

Mér finnst mikilvægt að nota bragð- og lyktarlausa kókosolíu í uppskriftina (nota frá Himneskri Hollustu) því annars verður kókosolíu bragðið mjög afgerandi.

 

 

Áður en ég hellti fyllingunni í formið raðaði ég skornum jarðarberjum meðfram hliðunum. Mér fannst það koma verulega skemmtilega út (og auðveldaði að ná kökunni úr forminu)

 

 

 

Í fyrra bjó ég til tvær svona kökur í einu um miðjan desember og geymdi í frysti. Ég tók aðra þeirra út fyrir jólaboð og hina fyrir gamlárskvöld. Ég bar kökuna fram með vegan rjóma og ferskum jarðarberjum og vakti hún mikla lukku. Amma mín bjó alltaf til jarðarberjabúðing fyrir áramótin sem var borðaður með rjóma og ferskum berjum og var þessi kaka mín tilraun til að halda í þá hefð en gera að minni. Mér finnst það hafa lukkast vel en þessi kaka er gullfalleg á veisluborðið og passar vel sem ferskur en hátíðlegur eftirréttur eftir hátíðarmatinn.

 

 

Ef kakan er ekki öll borðuð strax finnst mér best að skera hana í sneiðar og geyma hana þannig í frysti. Þá er auðvelt að bjóða gestum upp á sneið (tekur smá stund að þiðna) eða stelast sjálfur í kökuna.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Grunnur:

  • 1 dl pekanhnetur
  • 2 dl möndlur
  • 8 medjool döðlur, steinarnir teknir úr
  • 1 tsk kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 1 tsk vanilludropar
  • salt

Fylling:

  • 3 dl kasjúhnetur, ásamt u.þ.b. einum dl vatni
  • 2 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus, bráðin
  • 4 dl fersk jarðarber
  • 1 dl vegan rjómaostur, t.d. frá Oatly
  • 3/4-1 dl hlynsýróp
  • 1 msk vanilludropar
  • 3/4 dl sítrónusafi
  • sítrónubörkur af hálfri sítrónu
  • salt

Aðferð:

Grunnur:

  • Setjið möndlur og pecanhnetur  í matvinnsluvél og malið í um 20 sek.

  • Bætið hinum hráefnunum  út í og látið matvinnsluvélina ganga þar til deigið festist saman.

  • Leggið smjörpappír í botninn á hringlaga smelluformi og smyrjið hliðarnar með olíu.

  • Þrýstið deiginu vel niður í formið svo það þeki allan botninn.

  • Geymið botninn í kæli meðan fyllingin er útbúin.

Fylling:

  • Setjið kasjúhnetur, vatn og bráðna kókosolíu í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt.

  • Bætið afgangnum af hráefnunum út í og blandið vel.

  • Hellið fyllingunni yfir botninn. Ég ákvað að skera jarðaber í helminga og raða þeim meðfram kantinum á forminu áður en ég hellti fyllingunni yfir.

  • Geymið kökuna í frysti þar til hún stífnar eða í kæli yfir nótt.

  • Eftir að kakan er stífnuð má taka hana úr forminu og skreyta að vild. Ég skreytti kökuna með ferskum jarðarberjum og kakónibbum.

Gott að hafa í huga:

  • Medjool döðlum má skipta út fyrir ferskar döðlur eða þurrkaðar döðlur sem eru lagðar í bleyti í 1-2 klst.
  • Oatly rjómaosti má skipta út fyrir annan rjómaost eftir smekk.
  • Hlynsýrópi má skipta út fyrir aðra sætu, t.d. agave sýróp.

1 Comments

  • Jeff

    11/01/2018 at 7:44 pm

    Can I get this recipe in English 😉

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift