Ég hef alltaf verið hrifin af tortillum en eftir að ég varð vegan þá má segja að hrifning mín hafi náð nýjum hæðum. Við það að skipta út hakki eða kjúklingi fyrir svartbaunamauk verða til einhverjar allra bestu tortillur sem ég hef smakkað. Tortillur eru eiginlega vandræðalega algengur matur á mínu heimili og borðum við stundum tortillur fleiri daga í röð. Það er samt allt í lagi (sannfæri ég sjálfa mig um) enda eru tortillurnar sem við gerum gríðarlega hollar og næringarríkar.
Svartbaunamaukið er mjög einfalt í gerð og má prufa sig áfram með ólíkar samsetningar. Svartbaunum má t.d. skipta út fyrir linsubaunir eða nota pinto baunir til helminga. Uppskriftina má flækja með því að nota alls konar grænmeti og krydd en einnig má einfalda hana niður í þrjú grunnhráefni (svartbaunir, taco krydd og salsa sósu). Ég set maukið oftast í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur til að fá mjúka áferð en þegar ég er að flýta mér þá sleppi ég því og er það líka gott.
Þegar mamma og pabbi voru fátækir námsmenn í Danmörku bjuggu þau gjarnan til tortilla kökur og salsa sósu sjálf en þá voru slíkar vörur dýrar í verslunum. Ég hef aldrei prófað það en mig langar virkilega að sökkva mér í slíkar tilraunir við tækifæri. Þangað til nota ég heilhveiti- eða maístortillur og salsa sósu úr búð. Ofan á tortillurnar dreifi ég salsa sósu og set síðan grænt kál og svartbaunamauk. Mér finnst gott að skera t.d. gúrku, papriku og tómata og setja í tortilluna. Aðalatriðið er síðan að nota nóg af heimagerðu lárperumauki. Ég nota sýrðan rjóma frá Oatly sem mér finnst virkilega góður og set loks muldar nachos flögur.
Tortillur eru með því einfaldara sem er hægt að gera og henta þær vel inn á stór heimili því fólk raðar sjálft á sína köku. Það er t.d. ein af ástæðunum fyrir því að tortillur eru vinsælar á mínu heimili en þannig geta allir fengið eitthvað við sitt hæfi. Ég mæli með þessari uppskrift fyrir alla en sérstaklega þá sem eru að feta sig áfram í grænkerafæði og þá sem eru að læra að borða baunir. Ég er hrifin af svartbaunum en fyrir þá sem eru ekki jafn hrifnir af þeim legg ég til að nota linsubaunir eða að blanda pintobaunum við svartbaunirnar. Ef það verða afgangar er tilvalið að útbúa vefjur í nesti en svartbaunamaukið er ekki síðra kalt.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson