Súkkulaðihnetusmjör

Þetta súkkulaðismjör er hið fullkomna brauðálegg að mínu mati. Það er mjúkt og „creamy“, inniheldur súkkulaði og er hollt. Ekki skemmir fyrir hvað það er ótrúlega auðvelt að gera það.

 

Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að gera hnetusmjör og næ sjaldnast að slíta augun af matvinnsluvélinni meðan hún tætir hneturnar sundur. Smátt og smátt byrja olíurnar að losna úr hnetunum og smjör myndast.

 

Hér bið ég lesendur að staldra við. Ekki reyna að gera uppskriftina ef matvinnsluvélin er léleg. Það eru því miður ekki allar vélar sem geta búið til hnetusmjör og ég hef klúðrað ófáum uppskriftum í þrjósku minni við að nota gömlu matvinnsluvélina sem ég fann uppi á lofti. Ef matvinnsluvélin hins vegar getur gert hnetusmjör þá mæli ég sterklega með þessari uppskrift.

 

 

Þetta átti upphaflega að vera uppskrift að vegan nutella en svo mundi ég að mér finnst heslihnetur ekkert sérstaklega góðar. Ég ákvað því að nota fyrir kasjúhnetur en þær eru frekar bragðdaufar og fær súkkulaðið því að njóta sín vel. Annar kostur við kasjúhnetur er hvað þær eru ótrúlega mjúkar og verður smjörið því extra „creamy“. Fyrir þá sem eru hrifnir af heslihnetum mætti vel nota þær ásamt kasjúhnetum.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 500 g kasjúhnetur, þurrristaðar í ofni
  • 2-3 dl dökkt súkkulaði
  • 1 tsk vanilla, eða vanilludropar
  • salt

Aðferð:

  • 1)

    Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

  • 2)

    Dreifið kasjúhnetunum á bökunarplötu og bakið í ofninum þar til þær hafa náð gullnum lit. Þetta ætti að taka um 10 mínútur. Fylgist vel með að þær brenni ekki.

  • 3)

    Setið kasjúhnetur í matvinnsluvél. Blandið vel þar til smjör fer að myndast. Þetta tekur u.þ.b. 3 mínútur.

  • 4)

    Bætið hinum hráefnunum út í og blandið. Súkkulaðið bráðnar í matvinnsluvélinni því hnetusmjörið eru heitt.

  • 5)

    Súkkulaðihnetusmjörið geymist vel við stofuhita í lokuðu íláti eða krukku. Einnig má geyma það í ísskáp en það getur harðnað talsvert við það.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift