Ég kynntist þessum pastarétti upprunalega hjá systur minni sem eldaði dásamlega bragðgóðan og ofureinfaldan pastarétt þar sem sósan samanstóð fyrst og fremst af tómötum í dós og matreiðslurjóma. Við það að blanda matreiðslurjómanum út í klassíska marinara sósu urðu einhverjir töfrar til og bragðið er tekið á næsta stig.
Eins og þið eflaust vitið stóðst ég þó ekki mátið að auka næringargildið og laumaði því smá grænmeti og rauðum linsubaunum í sósuna. Það kemur alls ekki niður á bragðinu og eykur hollustu máltíðarinnar verulega. Punkturinn yfir i-ið er svo heimagerður parmesanostur úr ristuðum kasjúhnetum, hvítlauk, næringargeri og salti. Ef þið eruð ekki enn komin á næringargers vagninn legg ég til að prófa það strax! Næringarger er notað sem bráðhollur bragðbætir eða krydd í ýmsa matargerð. Duftið hefur hnetu-ostakeim og hentar því vel þegar á að ná fram ostabragði.
Það besta við réttinn, eins og titillinn gefur til kynna, er að hann hentar við öll tækifæri og allir elska hann! Fyrir rómantískt stefnumót er fullkomið að bera fram baguette og ólífuolíu ásamt ferskri basiliku og jafnvel hvítvínsglasi en svo er líka um að gera að leyfa einfaldleikanum að njóta sín. Mínir tveggja og þriggja ára stúfar vildu ekkert snobb og hökkuðu réttinn í sig án nokkurra fínheita. Upplagt er að útbúa tvöfalt magn af sósunni og frysta en þá er fljótlegt að skella í hollan kvöldverð þegar tíminn er naumur.
Verði ykkur að góðu!