Oumph! og ofnbakaðar kartöflur

Ég held ég geti fullyrt að fæstir séu grænkerar því þeim finnist kjöt vont á bragðið. Það er því mikilvægur hluti af því að gera veganisma raunhæfan kost og aðgengilegan sem flestum að bjóða upp á bragðgóða staðgengla fyrir kjöt. Eins og ég er nú hrifin af baunum og tófú þá er stundum gott að fá sér eitthvað sem minnir á matinn sem maður ólst upp við. Þar kemur Oumph! til leiks.

 

 

 

Oumph! er sojakjöt sem framleitt er í Svíþjóð. Það er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni og áferðin minnir sannarlega á kjöt. Annar stór kostur við Oumph! er að það kemur í þægilegum bitastærðum og þarf því ekki að skera það neitt frekar niður. Oumph! fæst frosið í helstu verslunum landsins og má velja milli fjölda bragðtegunda. Ég er hrifin af hvítlauks-timian bragðtegundinni en mér finnst hún passa vel í nánast allt. Ef litið yrði í frystinn minn mætti sjá þrjá pakka af Oumph! en þessi vara er mjög vinsæl á mínu heimili. Einnig er ég dugleg að taka Oumph! með mér í útilegur enda þarf hvorki að skera það né krydda, það geymist vel og grillast enn betur.

 

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að elda hollan mat, helst frá grunni. Hins vegar vil ég stundum geta gert fljótlegan, djúsí mat og þá er Oumph! frábært. Þessi réttur kemur virkilega á óvart en þrátt fyrir einfaldleikann er hann unaðslegur á bragðið. Ég steiki saman Oumph!, kjúklingabaunir, sveppi og gulrætur en þannig fæst prótínrík, trefjarík og næringarrík blanda sem hörðustu grænkerar og sælkerar ættu að geta borðað af bestu lyst. Með þessu ber ég fram ofnbakaðar kartöflur og ferskt avókadó.

 

 

Það má leika sér með hráefnin sem sett eru á pönnuna og mætti vel hugsa sér að sleppa baununum og setja t.d. lauk eða meira af sveppum. Einnig held ég að hrísgrjón eða quinoa komi vel út sem meðlæti. Rétturinn er sniðugur í nesti daginn eftir og gerði ég heiðarlega tilraun til að taka afgang af þessum rétt með mér í skólann en um morguninn var búið að borða hann upp til agna (svona lagað gerist reyndar mjög oft). Ég mæli með að taka sénsinn og prufa Oumph! sem fyrst, enda er það stórsniðugt hráefni.

Þessi færsla er ekki kostuð. Ég bara elska Oumph!

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Oumph! á pönnu

  • 1 pakki Oumph!, látið þiðna
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 pakki sveppir
  • 200 g gulrætur
  • 2 msk tamari sósa
  • 1/2-1 msk hlynsýróp
  • 1/2 grænmetisteningur
  • cayanne pipar eða chili
  • salt og pipar

Ofnbakaðar kartöflur:

  • 400-500 g kartöflur
  • góð olía
  • salt og pipar

Aðferð:

Oumph! á pönnu

  • Setjið Oumph!, kjúklingabaunir, gulrætur og sveppi á pönnu og steikið við háan hita í nokkrar mínútur þannig að sojakjötið brúnist. Þegar sveppirnir eru byrjaðir að mýkjast má bæta kryddunum út í og er blandan látin malla með lokið á pönnunni þar til gulræturnar hafa mýkst nokkuð vel. Hrærið vel í blöndunni og bætið við vatni eftir þörfum.

Ofnbakaðar kartöflur:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

  • Skerið kartöflurnar í báta, hellið olíu yfir og kryddið með salti og pipar.

  • Bakið í 20-30 mín a eða þar til kartöflurnar eru mjúkar að innan og stökkar að utan.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift