Ofnbakaðar paprikur með quinoafyllingu

Þessi réttur er ekki einungis skemmtilegur útlitslega (fullkominn fyrir næsta matarboð) heldur er bragðið, ótrúlegt en satt, betra en útlitið gefur til kynna! Þessi uppskrift kemur svo innilega á óvart og eru þessar ofnbökuðu paprikur með quinoafyllingu orðnar einn af reglubundnum réttum heimilisins. Ég held að lykillinn við bragðið felist í tveimur atriðum. Annars vegar er quinoað soðið með grænmetistening sem gefur því betra bragð. Hins vegar inniheldur fyllingin ekki aðeins quinoa heldur einnig vegan hakk, gular baunir og svartbaunir. Hún er því ótrúlega bragðmikil og mettandi.

Ég er að reyna að vera duglegri að elda quinoa enda er það eitt hollasta korn sem völ er á – sannkölluð ofurfæða. Kínóa er mikið notað í hvers kyns matargerð og virkar það vel sem meðlæti (líkt og hrísgrjón) eða hreinlega sem uppistaða í máltíð vegna þess hve næringarríkt það er. Kínóa er verulega prótínríkt en það inniheldur 12-18% prótín og allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar – það flokkast því sem fullkomið prótín. Kínóa hentar einnnig vel þeim sem eru með glúteinóþol því það er glúteinlaust. Þar að auki er það ríkt af steinefnum og vítamínum. Kínóa hefur um 15 mín suðutíma (en rautt og svart quinoa þarf aðeins lengri suðu) en mikilvægt er að skola kornin áður en þau eru soðin til að losna við biturt bragð af húðinni. Kínóa dregur í sig mikið vatn við suðu svo mikilvægt er að fylgjast vel með og bæta við vökva eftir þörfum. Uppskriftina má einnig elda með t.d. hýðishrísgrjónum eða perlubyggi en ég mæli með að gefa quinoa séns.


Ég setti smá vegan ost yfir paprikurnar í lokin sem er frábær punktur yfir i-ið en alls ekki nauðsynlegt fyrir þau sem kjósa hreinni fæðu. Ég mæli svo með að toppa réttinn með ferskri steinselju eða kóríander.

 

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir 6-8):

  • 4 stórar paprikur
  • 2 dl quinoa
  • 1 stk. grænmetisteningur
  • 1 pakki vegan hakk
  • 1 stk. rauðlaukur
  • 2-3 stk. hvítlauksrif
  • 1-2 dl maískorn
  • 1 dós svartbaunir
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 tsk. paprikukrydd
  • 1 tsk. cumin
  • salt og pipar, eftir smekk

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og hitið í 180°C, blástur.

  • Skolið quinoað vel. Sjóðið í um 20 mín í 4 dl af vatni ásamt einum grænmetistening.

  • Saxið rauðlauk og pressið hvítlauk. Mýkið á pönnu upp úr olíu.

  • Bætið vegan hakkinu saman við laukinn og steikið við miðlungshita þar til til hakkið hefur brúnast.

  • Bætið nú kryddunum saman við hakkið ásamt baunum og tómötum í dós. Hrærið loks soðnu quinoanu saman við og smakkið til.

  • Skerið paprikurnar í helminga og fræhreinsið. Raðið þeim í eldfast mót eða á bökunarplötu. Setjið vel af fyllingu ofan í hvern paprikuhelming og lokið fatinu með álpappír.

  • Bakið fylltu paprikurnar í alls 30 mín með álpappír yfir. Ef þið viljið setja vegan ost ofan á er best að gera það þegar 20 mín eru liðnar af bökunartíma. Dreifið þá ostinum yfir og bakið í 10 mín með álpappírinn enn yfir.

  • Takið nú álpapírinn af og bakið fylltu paprikurnar í 10 mín til viðbótar.

  • Berið fram ásamt ferskri steinselju eða kóríander.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift