Þessi grautur er í uppáhaldi hjá mér. Hann er ótrúlega fljótlegur og einfaldur og er einn af fyrstu morgungrautunum sem ég gerði. Ég reyni að eiga alltaf til hindber í frysti og kakónibbur í krukku en þá tekur aðeins nokkrar mínútur að gera þennan graut. Kakónibbur eru gríðarlega hollar og næringarríkar en þær eru í raun bara kakóbaunir í sem minnst unnu formi. Þær hafa sterkt, beiskt súkkulaðibragð og þarf lítið af þeim. Hindberin gefa grautnum skemmtilega ferskt bragð og fallegam ljósbleikan lit. Yfir veturinn finnst mér æði að setja örlítinn kanil út á grautinn en þá er hann næstum því hátíðlegur.
Frá því ég var lítil hef ég nánast alltaf borðað hafragraut í morgunmat. Gamli góði hafragrauturinn var mettandi og fór vel í maga. Í seinni tíð fór mér hins vegar að finnast slíkur hafragrautur ansi einhæfur. Fyrir nokkru síðan uppgötvaði ég nýja tegund af hafragraut og fæ ég mér hann nú í morgunmat alla morgna. Grauturinn er algjört nammi og er í svo miklu uppáhaldi hjá mér að ég fæ mér hann stundum í eftirrétt.
Morgungrauturinn kallast á ensku overnight oatmeal og er hann útbúinn kvöldið áður og látinn standa í kæli yfir nótt. Yfir nóttina mýkjast hafrarnir og chia fræin og verður grauturinn virkilega mjúkur áferðar. Grauturinn er svo tekinn úr ísskápnum um morguninn og borðaður kaldur. Um morguninn er gott að setja t.d. skorinn banana, hnetur og fræ út á grautinn.
Kostirnir við morgungrautinn eru margir. Grauturinn er fljótlegur, hollur, góður og mettandi og er hægt að leika sér endalaust með mismunandi samsetningar. Uppistaðan í grautum eru hafrar og chiafræ en hafrar eru trefjaríkir og mettandi og chiafræ eru flokkuð sem ofurfæða. Chia fræ eru stútfull af omega 3, prótíni, trefjum og andoxunarefnum auk þess sem það hefur góð áhrif á brennslu og meltingu. Það er því frábært að byrja alla daga á chia fræjum. Mér finnst einnig mikill kostur að geta útbúið grautinn kvöldið áður því ég fer oft snemma á fætur og það er þægilegt að geta kippt grautnum með sér á morgnana. Ég geri gjarnan þrjá grauta í einu og á þá til morgunmat í ísskápnum fyrir næstu morgna. Mér finnst mjög skemmtilegt prufa ný tilbrigði af morgungraut og ég get sjaldnast beðið eftir að borða morgunmatinn minn.
Hér fyrir neðan er uppskrift að grunn-morgungraut. Út í grunninn má svo bæta ýmsum spennandi hráefnum en hér nota ég hindber, kakónibbur og döðlur. Hægt er að gera grautinn glútenlausan með því að nota glútenlaust haframjöl og glútenlausa mjólk og jógúrt. Einnig er ekkert mál að sleppa chiafræjum og minnka þá magnið af plöntumjólk á móti.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson