Ég hef alltaf verið mikil morgunmanneskja og er morgunmatur heilagur fyrir mér. Það gerist hins vegar oft að ég er á hlaupum út úr húsi á morgnana og þá er frábært að geta gripið eitthvað hollt, gott og næringarríkt með sér út í daginn. Ég er farin að nýta mér það að geta borðað morgunmatinn í skólanum ansi oft og kannast flestir bekkjarfélagar mínir eflaust við að þurfa að hlusta á smjattið í mér í fyrsta tíma. Einnig finnst mér frábært að eiga svona stykki til að grípa með í fjallgöngur eða ferðalög en mikla orku er að fá úr hnetum og döðlum.
Þessi morgunstykki eru frábær. Þau eru fljótgerð, einföld og svo ótrúlega bragðgóð. Ég er mjög hrifin af saltkaramellu og langaði mig að útbúa stykki sem væru holl en bæru keim af saltkarmellubragði. Mér finnst það hafa tekist nokkuð vel með þessum stykkjum og vekja þau mikla lukku á heimilinu.
Mér finnst alltaf best að nota ferskar döðlur en vel má nota þurrkaðar með því að leggja þær í bleyti. Hneturnar eru ristaðar í ofni en það gefur meira og betra bragð. Ég nota möndlusmjör í uppskriftinni en það mætti vel prófa að nota hnetusmjör. Einnig má leika sér með að nota aðrar hnetur en valhnetur og held ég t.d. að pekanhnetur gætu komið virkilega vel út.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson