Karrý kjúklingabaunir

Þessar karrý kjúklingabaunir eru gerðar nánast vikulega á heimilinu mínu. Uppskriftin er svo hlægilega einföld en jafnframt ótrúlega bragðgóð. Kjúklingabaunir eru tiltölulega bragðmildar baunir með þægilegri áferð sem flestir sem eru að byrja að borða baunir ættu að prófa. Kjúklingabaunir, eins og flestar baunir, eru prótínríkar auk þess sem þær innihalda trefjar, vítamín og steinefni. Þessi réttur er því bráðhollur og næringarríkur og hentar bæði þeim sem vilja eitthvað einfalt í kvöldmat eða í nesti eða þeim sem kjósa hollt grænmetisfæði.

Karrý baunirnar eru nokkuð bragðmiklar og fyrir þá sem eru ekki hrifnir af sterkum mat væri sniðugt að minnka hlutfall krydda í uppskriftinni. Ég mæli með að prufa sig áfram með uppskriftina en t.d. er gott að setja kókosmjólk í dós út í réttinn en þá myndast mild karrýsósa. Einnig er sniðugt að bæta grænmeti út á pönnuna eins og t.d. papriku, tómötum og spínati.

 

 

 

Mér finnst gott að elda stóran skammt af þessum rétt og geyma í ísskáp til að geta tekið með í nesti. Baunirnar eru góðar kaldar og er frábært að bæta þeim út á salat og fá þannig mettandi og næringarríka máltíð. Einnig eru þær gómsætar heitar í kvöldmat ásamt hrísgrjónum og jafnvel fersku kóríander og límónu.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 laukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlauksrif, pressað
  • 2 msk olía, t.d. avókadóolía
  • 1 tsk cumin
  • 1 tsk engiferkrydd, eða ferskt engifer
  • 2 tsk karrý
  • 1/4 tsk chili eða cayanne pipar
  • 2 dósir kjúklingabaunir, skolaðar
  • 1/2-1 tsk sítrónusafi
  • 1-2 msk tómatpúrra
  • 5 dl vatn
  • salt og pipar

Aðferð:

  • Setjið lauk og hvítlauk á pönnu ásamt kryddunum og olíunni. Látið malla í nokkrar mínútur þar til laukurinn hefur mýkst.

  • Setjið hin hráefnin út í og látið malla við lágan hita í hálftíma þar til vatnið hefur gufað upp.

  • Geymist vel í kæli og er gott í nesti, heitt eða kalt.

Gott að hafa í huga:

  • Til að fá mildari rétt með meiri sósu er gott að setja kókosmjólk í dós út á pönnuna.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift