Indverskt dal er grænmetis-baunaréttur sem er gríðarlega vinsæll hversdagsmatur í Indlandi og hefur náð mikilli útbreiðslu í öðrum löndum. Ég nota orðið “Dal” hér en einnig má rita “Daal”, “Dhal” og “Dahl”. Orðið kemur úr Hindi og notað yfir klofnar baunir og sömuleiðis þennan rétt, sem gerður er úr klofnum linsubaunum.
Dal er einn uppáhalds rétturinn minn því hann er svo hollur og bragðgóður en á sama tíma gríðarlega einfaldur og krefst lítillar vinnu. Á meðan rétturinn mallar í pottinum má svo dunda sér við að útbúa jógúrtsósu og naan brauð. Þetta er einn af þeim réttum þar sem uppskriftin er hálfgert aukaatriði og hentar rétturinn því vel til að tæma ísskápinn (og kryddskápinn). Aðalatriðið er að nóg af grænmeti, linsubaunum og kryddum sé til staðar.
Í uppskriftina eru notaðar rauðar linsubaunir en mér finnst best að kaupa þær þurrar, því ólíkt stærri baunum þá eru þær fljótar að mýkjast. Linsubaunir eru mjög prótínríkar, og því frábær hluti af mataræði grænkera, sem og annarra. Linsubaunir henta einnig vel fyrir þá sem eru að byrja í baunaréttum því þær eru smáar og bragðlitlar en draga í sig bragð af grænmetinu og kryddunum ásamt því að gefa réttinum þykka og mjúka áferð.
Indverskt dal er best borið fram með soðnum hrísgrjónum eða kínóa, raita jógúrtsósu, heimagerðu naan brauði og fersku kóríander. Mér finnst gott að elda mikið Dal í einu því það er hreinlega bara betra daginn eftir og hentar frábærlega í nesti.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson
1 Comments
Guðrún Þórarinsdóttir
04/21/2021 at 7:57 pm
Mjög góð uppskrift af Dhal. Takk fyrir síðuna þína. Líst vel á uppskriftirnar.
Kveðja
Guðrún