Þessi uppskrift af hummuspasta er svo einföld en gríðarlega holl, saðsöm og næringarrík. Ég elda pasta ekkert rosalega oft en þegar ég geri það þá finnst mér mikilvægt að rétturinn innihaldi prótín og grænmeti. Ég er hins vegar mjög hrifin af mildu, rjómakenndu pasta og varð þessi uppskrift til þegar ég reyndi að sameina þetta allt.
Með því að nota hummus sem uppistöðuna í sósunni fæst gríðarlega næringarríkur og prótínríkur réttur sem bragðast hins vegar eins og versta óhollusta. Ásamt hummusnum nota ég kókosmjólk í dós en hún gefur rjómakennda áferð og bragð. Ég toppaði þetta svo með blöndu af uppáhaldsgrænmetinu mínu: brokkólíi, sveppum og spínati.
Hummus á sér langa sögu en hann er upprunninn í Mið-Austurlöndum og er ýmist notaður sem ídýfa eða smurálegg. Uppistaðan í hummus eru kjúklingabaunir en við þær er blandað tahini (sesamsmjör), hvítlauk, sítrónusafa, salti og ólífuolíu. Hummus er próteinríkur, trefjaríkur og stúfullur af vítamínum og steinefnum (t.d. B-vítamíni og járni).
Í uppskriftina má nota keyptan hummus en ég mæli þó með því að búa til sinn eigin. Það er nefnilega ótrúlega auðvelt, fljótlegt og ódýrt að gera sinn eigin hummus og þá er hægt að smakka hann til og bragðbæta eftir eigin höfði. Uppskriftina má einfalda og notast við það sem er til í ísskápnum. Einnig má gera uppskriftina „fínni“ og bæta t.d. hvítvíni út í sósuna og bera fram gott hvítlauksbrauð með pastanu. Uppskriftina má auðveldlega gera glútenlausa með því að nota glútenlaust pasta. Einnig hef ég prófað að nota pasta úr sojabaunum og það kom skemmtilega á óvart.
Ljósmyndir: Aron Gauti Sigurðarson