Þetta bananabrauð er uppáhalds helgarbakstur fjölskyldunnar en stúfunum mínum finnst svo gaman að taka þátt í bakstrinum. Mér finnst mikilvægt að halda hvítum sykri í lágmarki og bananabrauð er frábær byrjunarreitur fyrir af-sykurvæðingu. Það er nefnilega svo mikil sæta í banönum og algjör óþarfi að setja fleiri hundruð grömm af sykri og púðursykri til viðbótar. Í staðinn legg ég til að nota döðlur en þær gefa ekki aðeins sætu heldur hafa ýmis jákvæð heilsufarsleg áhrif, svo sem á bein, meltingu og á jafnvel við barnsburð (döðlur geta stutt við að fæðing gangi vel!).
Galdurinn við uppskriftina er annarsvegar kjúklingabaunasafi (e. aquafaba) en hann fæst með því að sigta safann frá kjúklingabaunum í dós. Kjúklinabaunasafi er algjört galdrahráefni í vegan bakstri og getur komið í stað eggja. Magnaðasta dæmið um notkun þess hráefnis er að með því að þeyta kjúklingabaunasafa með sykri má gera vegan marengs! Hitt lykilatriðið er að blanda sítrónusafa við plöntumjólk og leyfa því að blandast saman en sýran hjálpar til við lyftingu og gerir brauðið mýkra.
Ég notaði matvinnsluvél til að mauka döðlurnar og bananann en vel má nota blandara, hrærivél eða einfaldlega stappa og hræra með písk. Til að bananabrauðið festist ekki við formið finnst mér gott að smyrja formið með olíu og dreifa svo haframjöli á allar hliðar. Ég valdi að skreyta brauðið með banana sem var skorinn langsum en einnig er fallegt að strá grófu haframjöli yfir.
Verði ykkur að góðu!