Grænmetislasagna

Lasagna er réttur sem pabbi sá alltaf um að elda og var þetta fínn réttur á mínu heimili. Þegar ég varð eldri og virkari í eldhúsinu fannst mér alltaf spennandi að hjálpa pabba að útbúa lasagna. Það var eitthvað við að raða ólíkum hráefnum vandvirknislega upp á reglubundinn hátt sem heillaði mig. Lasagna er hins vegar einhver allra óheppilegasti réttur sem er hægt að elda fyrir fjölskylduna mína nú til dags enda er oftast kjöt, glúten og mjólk í lasagna. Ég er hins vegar ekki tilbúin til að gefa þennan rétt upp á bátinn og hef því þróað frábært vegan og glútenlaust lasagna sem er sko ekki síðra en það sem pabbi kenndi mér fyrir mörgum árum.

 

 

Í staðinn fyrir kjötsósuna nota ég linsubaunasósu sem má einnig nota í linsubauna bolognese. Sósan er gríðarlega holl og bragðgóð og má leika sér með ólík hráefni eða bara nota það sem er til í ísskápnum. Mér finnst t.d. mjög gott að nota sveppi í sósuna en þeir gefa dálítið “kjötbragð” að mínu mati. Einnig getur verið gott að sleppa grænum linsubaunum og nota eingöngu rauðar en þær eru smærri og blandast betur inn í sósuna.

 

 

 

Hvíta sósan í þessari uppskrift er gerð úr kasjúhnetum. Mér finnst hún virkilega bragðgóð og passa vel í lasagna en einnig má gera hvíta sósu úr plöntumjólk og hveiti (jafning/uppstúf). Eins finnst mér gott að bræða saman oatly ost, plöntumjólk og smá næringarger og nota í lasagna. Það má því leika sér með hvers konar hvít sósa er gerð eða nota t.d. tvær ólíkar tegundir í eitt lasagna.

 

 

 

Í þessari uppskrift nota ég glútenlausar lasagnaplötur en vel má nota annars konar plötur (t.d. heilhveiti) en passið að það séu ekki egg í innihaldslýsingunni. Einnig má nota þunnt skorið grænmeti í staðinn fyrir pastaplötur og koma t.d. kúrbítur eða sætar kartöflur vel út. Ég legg vanalega lasagnaplöturnar í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en ég raða þeim í ofnfatið en þannig verða þær mýkri og þarf ekki að baka lasagnað eins lengi.

 

 

 

Mér finnst gott að búa til vegan parmesan ost úr valhnetum, hvítlauk og næringargeri og setja yfir lasagnað áður en það fer í ofninn en það þarf alls ekki. Uppskriftin að parmesanostinum er fengin frá maedgurnar.is en ég gef hana einnig hér að neðan. Mér finnst best að bera lasagnað fram með klettasalati og kirsuberjatómötum.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Rauð linsubaunasósa:

  • 1/2-1 laukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2-3 stórar gulrætur, rifnar
  • 1/2 paprika, smátt skorin
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1 dós tómatpúrra
  • 1,5 dl rauðar linsur, þurrkaðar
  • 1 dl grænar linsur, þurrkaðar
  • 8 dl vatn
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1 tsk tamarisósa
  • paprikukrydd
  • oregano
  • handfylli fersk basilíka, smátt söxuð

Hvít sósa:

  • 1 dl kasjúhnetur
  • 3 dl vatn
  • 2 msk kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 1,5-2 msk næringarger
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 1 tsk hlynsýróp
  • salt og pipar

Parmesan frá Mæðgunum:

  • 1 dl valhnetur
  • 2 msk næringarger
  • 1 hvítlauksrif

Aðferð:

Rauð linsubaunasósa:

  • Setjið lauk og hvítlauk á pönnu ásamt olíu og mýkið við lágan hita í smá stund.

  • Bætið gulrótunum út á pönnuna og steikið áfram þar til þær hafa mýkst.

  • Setjið næst linsubaunirnar, tómatana í dós, tómatpúrruna og vatn á pönnuna. Látið malla við lágan hita í um 30-40 mín með lokinu á. Bætið vatni við ef þarf.

  • Þegar um 20 mín eru eftir af eldunartíma er paprikunni bætt út í og leyft að eldast í smá stund.

  • Loks er kryddunum bætt út í ásamt grænmetisteningnum og tamari sósu. Ég mæli með að smakka blönduna til og bæta við kryddum eftir þörfum.

  • Ef blandan er laus í sér, það finnst mikið baunabragð eða baunirnar eru ekki alveg mjúkar þarf að láta þetta sjóða lengur.

Hvít sósa:

  • Setjið kasjúhnetur í blandara ásamt 2 dl af vatni og blandið vel í nokkrar mínútur.

  • Setjið hin hráefnin út í blandarann og blandið þar til silkimjúkt.

  • Setjið sósuna í pott og hitið upp að suðu. Látið malla þar til sósan hefur þykknað og hrærið vel á meðan.

Parmesan:

  • Setjið hráefnin í blender í 10-20 sek þar til myndast hefur fíngert kurl.

Samsetning:

  • Leggið lasagnaplöturnar í heitt vatn og leyfið þeim að mýkjast í nokkrar mínútur.

  • Raðið saman lasagnanu. Ég set vanalega hvíta sósu neðst, svo lasagnaplötur og loks linsubaunasósuna. Ég reyni að gera þrjár umferðir af þessu og helli svo sósu yfir efst.

  • Fyrir þá sem vilja má setja vegan parmesan ost yfir lasagnað áður en það er sett inn í ofn.

  • Bakið við 180° í 20-30 mín eða þar til osturinn/hvíta sósan efst hefur brúnast og lasagnaplöturnar eru mjúkar.

Gott að hafa í huga:

  • Það má sleppa fersku paprikunni og nota t.d. meira paprikukrydd í staðinn
  • Mjög gott er að bæta skornum sveppum út í réttinn.
  • Sleppa má grænum linsubaunum og nota meira af rauðum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift