Lasagna er réttur sem pabbi sá alltaf um að elda og var þetta fínn réttur á mínu heimili. Þegar ég varð eldri og virkari í eldhúsinu fannst mér alltaf spennandi að hjálpa pabba að útbúa lasagna. Það var eitthvað við að raða ólíkum hráefnum vandvirknislega upp á reglubundinn hátt sem heillaði mig. Lasagna er hins vegar einhver allra óheppilegasti réttur sem er hægt að elda fyrir fjölskylduna mína nú til dags enda er oftast kjöt, glúten og mjólk í lasagna. Ég er hins vegar ekki tilbúin til að gefa þennan rétt upp á bátinn og hef því þróað frábært vegan og glútenlaust lasagna sem er sko ekki síðra en það sem pabbi kenndi mér fyrir mörgum árum.
Í staðinn fyrir kjötsósuna nota ég linsubaunasósu sem má einnig nota í linsubauna bolognese. Sósan er gríðarlega holl og bragðgóð og má leika sér með ólík hráefni eða bara nota það sem er til í ísskápnum. Mér finnst t.d. mjög gott að nota sveppi í sósuna en þeir gefa dálítið “kjötbragð” að mínu mati. Einnig getur verið gott að sleppa grænum linsubaunum og nota eingöngu rauðar en þær eru smærri og blandast betur inn í sósuna.
Hvíta sósan í þessari uppskrift er gerð úr kasjúhnetum. Mér finnst hún virkilega bragðgóð og passa vel í lasagna en einnig má gera hvíta sósu úr plöntumjólk og hveiti (jafning/uppstúf). Eins finnst mér gott að bræða saman oatly ost, plöntumjólk og smá næringarger og nota í lasagna. Það má því leika sér með hvers konar hvít sósa er gerð eða nota t.d. tvær ólíkar tegundir í eitt lasagna.
Í þessari uppskrift nota ég glútenlausar lasagnaplötur en vel má nota annars konar plötur (t.d. heilhveiti) en passið að það séu ekki egg í innihaldslýsingunni. Einnig má nota þunnt skorið grænmeti í staðinn fyrir pastaplötur og koma t.d. kúrbítur eða sætar kartöflur vel út. Ég legg vanalega lasagnaplöturnar í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en ég raða þeim í ofnfatið en þannig verða þær mýkri og þarf ekki að baka lasagnað eins lengi.
Mér finnst gott að búa til vegan parmesan ost úr valhnetum, hvítlauk og næringargeri og setja yfir lasagnað áður en það fer í ofninn en það þarf alls ekki. Uppskriftin að parmesanostinum er fengin frá maedgurnar.is en ég gef hana einnig hér að neðan. Mér finnst best að bera lasagnað fram með klettasalati og kirsuberjatómötum.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson