Þessi vegan pítsa gefur hefðbundnum pítsum ekkert eftir. Ég hef boðið upp á pítsuna við ýmis tilefni og undantekningalaust borðar fólk hana með bestu lyst og þar að auki þekki ég nokkra sem eru ekki vegan en kjósa samt að gera þessa vegan pítsu.
Kosturinn við þessa pítsu umfram aðrar vegan pítsur er osturinn. Ég verð að viðurkenna að vegan ostar eru eitt það síðasta sem ég fann almennilega út úr eftir að ég varð vegan. Líf mitt breyttist hins vegar þegar sænska fyrirtækið Oatly gaf út smurost sem er úr höfrum. Það hljómar skringilega en það virkar! Ég hef notað þennan smurost í nánast allt sem mér dettur í hug, t.d. kökur, súpur, pastarétti og á pítsur. Smurosturinn bragðast svipað og rjómaostur og bráðnar vel í ofni. Hann er því fullkominn á pítsur.
Til að standa ekki í því klístri að setja klessur af smurosti ofan á pítsuna finnst mér best að bræða ostinn í potti og hella yfir pítsuna áður en hún fer í ofninn. Fyrir þá sem eru hrifnir af næringargeri er frábært að bæta því út í smurostinn þegar hann er bræddur en þá fær hann fallegan gulleitan lit.
Hinn galdurinn við pítsuna er hráefnið Oumph! en það er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojapróteini og minnir áferðin og bragðið helst á kjúkling. Oumph! fæst frosið í öllum helstu matvöruverslunum og er eitt uppáhalds hráefnið mitt því það fæst í mörgum kryddútgáfum og eru bitarnir einmitt í mátulegri stærð fyrir pítsu svo það þarf einfaldlega að afþýða það og þá má skella því ofan á pítsuna (gott er þó að steikja það aðeins á pönnu fyrst). Ef fólk kýs ekki að nota Oumph! er vel hægt að steikja t.d. kjúklingabaunir og nota í staðinn en það kemur vel út.
Ég ólst upp við að á hverjum föstudegi bakaði fjölskyldan saman pítsur. Þetta er skemmtileg hefð sem ég hef reynt að halda í og finnst mér gaman að prufa mig áfram með vegan pítsur og spennandi samsetningar af áleggjum. Þessi pítsa er að mínu mati hin fullkomna föstudagspítsa til að borða með fjölskyldunni yfir bíómynd. Einföld, djúsí og hrikalega góð.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson