Chili sin carne

Fullkomin uppskrift fyrir kaldari mánuði ársins. Þennan pottrétt er ótrúlega einfalt að útbúa og bragðið er dásamlegt. Ég var ekki alveg viss um hvort ég ætti að kalla réttinn Chili sin carne eða Chili con carne vegna þess að notast er við vegan hakk. Þannig er uppskriftin vissulega kjötlaus en bragðast þó eins og Chili con carne. Rétturinn samanstendur fyrst og fremst af vegan hakki frá Ellu Stínu, nýrnabaunum og tómötum í dós sem látið er malla við lágan hita. Eins þægilegt og það gerist!

Mér finnst gott að bera pottréttinn fram með hrísgrjónum eða quinoa, sýrðum rjóma, avókadói (eða guacamole), fersku lime, grænum chili ef vill og svo kóríander. Þannig verður til fullkomin blanda á milli hlýlegs bragðsins af pottréttnum og svo fersku meðlætinu.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir 4-6):

Chili sin carne:

  • 1-2 msk. góð olía
  • 1 stk. gulur laukur
  • 3-4 stk. hvítlauksrif
  • 400 g vegan hakk, ég nota frá Ellu Stínu
  • 2 dósir nýrnabaunir
  • 140 g tómatpúrra
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 tsk. cumin
  • 2 tsk. paprikukrydd
  • 1/2 tsk. reykt paprika
  • 1/4 tsk. ceylon kanill
  • 1/2 chiliflögur, eða eftir smekk
  • salt og pipar

Hugmyndir að meðlæti:

  • Soðin hrísgrjón eða quinoa
  • Maísflögur
  • Avókadó eða guacamole
  • Ferskt kóríander
  • Sýrður rjómi
  • Grænn chili
  • Lime

Aðferð:

  • Saxið lauk og pressið hvítlauk. Mýkið upp úr olíu í stórum potti.

  • Bætið vegan hakkinu saman við laukinn ásamt kryddunum og steikið þar til hakkið hefur brúnast.

  • Hrærið nú nýrnabaunum, tómatpúrru og tómötum í dós saman við hakkblönduna. Látið malla í 20-30 mínútur.

  • Berið fram með meðlæti eins og hrísgrjónum/quinoa, avókadó, lime, vegan sýrðum rjóma og kóríander.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift