Ég ákvað að láta loksins verða af því að birta eina af mínum uppáhalds kökuuppskriftum en jafnframt þá allra hollustu. Ég held að fólk mikli oft aðeins fyrir sér að gera svona kökur en í raun eru þær svo ótrúlega einfaldar því öllu er skellt í blandara/matvinnsluvél og sjálf vinnan er í raun bara að skammta hráefni og borða afraksturinn. Mér finnst helsti kosturinn við svona hollustukökur einmitt sá hvað það er erfitt að klúðra þeim.
Ég gerði bláberjapæjurnar í litlum sílíkon muffinsformum og dugar uppskriftin í um 16 slíkar pæjur. Vel má hins vegar í staðinn gera eina stóra eða tvær miðlungsstórar pæjur í smelluformi.
Botninn samanstendur aðallega af hnetum, döðlum og kakódufti en fyllingin inniheldur meðal annars bláber og jarðarber, kasjúhnetur, acai duft, chia og kókosmjólk. Fyllingin er dásamlega mjúk og passar fullkomlega með stökkum botninum. Ég notaði ofurduftin Plant Collagen og Forever Beautiful frá Your Super en ég á þau alltaf til og fannst svo tilvalið að bæta þeim í fyllinguna. Það má þó alveg sleppa þeim eða skipta út fyrir t.d. Acai duft og Lucuma.
Verði ykkur að góðu!
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Tropic.is