Hér er uppskrift að sumarlegri, ferskri og öðruvísi pítsu sem kemur virkilega á óvart. Systir mín hefur gagnrýnt mig fyrir að kalla þetta pítsu og vill hún að ég kalli þetta hrökkkex með salati en ég er ósammála því og stend með minni pítsu (þó svo að hrökkkex með salati sé ekki svo fjarri lagi). Ég get fullyrt að þessi pítsa er virkilega djúsí en kasjúhnetusósan kemur í stað osts og úr verður virkilega skemmtilegur réttur sem ætti ekki að valda neinum vonbrigðum.
Hægt er að gera pítsuna að hráfæðispítsu með því að baka botninn í þurrkofni en ég bý ekki svo vel að eigaþurrkofn og er þetta því „næstum-hrápítsa“. Pítsuna má einnig gera glútenlausa með því að nota glútenlaust mjöl eða glútenlaust hafrahveiti í botninn. Annars er hún að sjálfsögðu vegan, sykurlaus og bráðholl. Þessi uppskrift er nógu stór fyrir tvo botna eins og eru sýndir hér en vanalega er ein slík pítsa á mann mátulegt magn.
Ég hef margoft gert þessa pítsu og komist að þeirri niðurstöðu að áleggin í þessari uppskrift mynda fullkomna heild. Avókadóin skapa mjúkt undirlag en jarðaberin og klettasalatið mynda einhversskonar jafnvægi milli sætu og beiskju. Mér finnst rauðlaukur, paprika og furuhnetur koma skemmtilega út en hægt er að leika sér með önnur álegg svo sem mangó, kirsuberjatómata og salthnetur eða graskersfræ.
Pítsan er fljótgerð miðað við aðrar heimagerðar pítsur því meðan botninn bakast er hægt að skera grænmetið og búa til sósuna. Ég geri þessa pítsu oft yfir vor- og sumartímann og vekur hún alltaf mikla lukku en hún passar fullkomlega með glasi af hvítvíni í góðra vina hópi.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson