Allar uppskriftasíður þurfa að hafa að lágmarki eina hummusuppskrift ekki satt? Ég fæ mér nánast daglega hummus en mér finnst mjög gott að smyrja honum á brauð og hrökkkex eða nota sem ídýfu fyrir skornar gulrætur og gúrku. Einnig er gott að nota hummus í ýmsa rétti eins og t.d. í falafelvefjur eða sem sósu á pasta eða salat. Það er mikið til af hummus í matvöruverslunum landsins en mér finnst heimagerður hummus alltaf bestur og sem betur fer er bæði auðvelt og ódýrt að búa til sinn eigin hummus.
Hummus á sér langa sögu en hann er upprunninn í Mið-Austurlöndum og er ýmist notaður sem ídýfa eða smurálegg. Uppistaðan í hummus eru kjúklingabaunir en við þær er blandað tahini (sesamsmjör), hvítlauk, sítrónusafa, salti og ólífuolíu. Hummus er próteinríkur, trefjaríkur og stúfullur af vítamínum og steinefnum (t.d. B-vítamíni og járni).
Ég set gjarnan örlítið af sólþurrkuðum tómötum út í hummusinn og finnst mér það gera mikið fyrir bragðið. Það má hins vegar sleppa því. Einnig bæti ég stundum við lúku af saxaðri, ferskri basilíku ef ég vil breyta örlítið til.
Hummusinn geymist vel í kæli og er frábært að eiga heimagerðan hummus til að grípa með sér í nesti. Á mínu heimili eru alltaf til að lágmarki tvær tegundir af hummus en mamma er alveg sérstakur hummusaðdáandi. Hún er einnig dugleg að prufa sig áfram með ýmis tilbrigði eins og karrýhummus eða avókadóhummus.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson