Ástæður veganisma
Vegan eða grænkeri er hugtak sem er notað yfir þá sem kjósa sér lífsstíl án dýraafurða. Hugmyndafræði veganisma snýst um að fólk hafi ekki siðferðislegan rétt til að nýta dýr sér til matar, klæðnaðar, skemmtunar eða annars. Almennt er talað um þrjár meginástæður fyrir því að fólk gerist vegan. Þær eru dýravelferð, umhverfisvernd og heilsa.
Sjónarmið tengd dýravelferð eru þau sem vega gjarnan þyngst og telja grænkerar að dýr hafi rétt á að lifa og að komið sé vel fram við þau. Þannig vilja grænkerar umbylta þeirri hugmynd að dýr séu hér á jörðinni sem fæða, klæði eða skemmtun fyrir okkur mennina. Við lifum í samfélagi þar sem litið er á sum dýr sem vöru frekar en skyni gædda einstaklinga. Ekki þarf að leita lengi til að finna fjölmörg dæmi um þann ógeðfellda aðbúnað sem húsdýr búa við en það má m.a. sjá skýrt í heimildarmyndum á borð við Earthlings og Dominion. Ísland er þar því miður ekki undanskilið en margir muna eflaust eftir að hafa vaknað upp við vondan draum þegar sykurhúðin á eggjaiðnaðinum hvarf og Brúneggjamálið var upplýst. Staðreyndin er einfaldlega sú að dýraiðnaðurinn, allt frá sæðingu að slátrun, er grimmt og sorglegt ferli.
Umhverfissjónarmiðin hafa náð talsverðri útbreiðslu undanfarið samhliða aukinni umfjöllun um umhverfisvandann sem nú steðjar að heiminum. Kjötiðnaðurinn er skaðlegur umhverfi og náttúru en hann er ábyrgur fyrir gífurlegri losun gróðurhúsalofttegunda, vatnsnotkun og landnotkun. Til að rækta öll þau dýr sem enda á diskum manna þarf mikið magn matar og vatns. Til að rækta fóður fyrir öll þessi dýr þarf heilmikið landsvæði og erlendis eru skógar gjarnan felldir til að ryðja land, sem losar enn meiri koltvísýring. Síðast en ekki síst losa dýrin sjálf metan sem er margfalt virkari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Talið er að um 13-18% losunar gróðurhúsalofttegunda sé vegna landbúnaðar en til samanburðar losa allar samgöngur heims um 13%. Það er því til mikils að vinna í umhverfisvernd að draga úr neyslu dýraafurða.
Þriðja atriðið er heilsuvernd. Neysla dýraafurða hefur meðal annars verið tengd við áunna sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein. Víða hefur mjólk verið tekin út úr fæðupýramídanum og er lagt til að kjötneysla sé takmörkuð eftir bestu getu. Samtök bandarískra næringarfræðinga gáfu frá sér yfirlýsingu um að vel skipulagt vegan fæði væri heilsusamlegt, innihéldi næga næringu og geti nýst sem forvörn og meðferð vissra sjúkdóma. Slíkt fæði væri viðeigandi fyrir einstaklinga á hvaða lífsskeiði sem er. Margs konar heilsufarslegur ávinningur getur hlotist af því að borða fjölbreytt plöntumiðað fæði og kýs til dæmis íþróttafólk í síauknum mæli að gerast vegan.
Áður fyrr þurftu Íslendingar á kjöti og öðrum dýraafurðum að halda til að lifa af. Í dag er raunin hins vegar önnur og við höfum ótrúlegt úrval af mat úr plönturíkinu. Við getum valið að borða næringarríkan og bragðgóðan mat sem krefst þess ekki að dýr séu drepin, jörðin menguð og heilsu okkar stofnað í hættu.
Grein eftir Þórdísi Ólöfu Sigurjónsdóttur
Ljósmynd eftir Sigtrygg Ara