Um mig

Ég heiti Þórdís Ólöf og er grænkeri sem bý Vesturbænum ásamt unnusta mínum og tveimur börnum. Ég hef brennandi áhuga á matargerð, næringu og heilsu og finnst mér fátt skemmtilegra en að elda og borða góðan mat. 

Ég gerðist vegan árið 2016 og hef aldrei litið til baka. Ég tel að vegan mataræði sé besta og jafnframt einfaldasta leiðin til að stuðla að betri heimi fyrir okkur, dýrin og jörðina. Eftir að ég breytti um mataræði tók við tímabil þar sem ég átti í smá vandræðum með hvað ég gæti borðað. Það tímabil stóð sem betur fer stutt yfir og við tók heill heimur af uppskriftum, mat og fróðleik sem kemur enn á óvart. Mér finnst plöntumiðað fæði frábært í alla staði, hvort sem horft er til bragðlaukanna eða til heilsu, umhverfis og dýra. Ég opnaði þessa uppskriftasíðu í nóvember 2018 og vil með henni sýna fólki hvað það er auðvelt og skemmtilegt að elda vegan mat og að grænkerar geti vel verið sælkerar.

Ég hef mikinn áhuga á útivist og nýti sumrin í að ferðast um landið og fara í bakpokaferðalög, fjallahjólaferðir og útilegur. Náttúru- og dýravernd skiptir mig miklu máli og ég tel mikilvægt að neyta ekki dýraafurða til að vinna gegn skaða mannsins á náttúru og lífríki. Uppskriftasíðan er því ekki síður framlag mitt til náttúruverndar og mín tegund af aktívisma gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ég er með BA-gráðu í arkitektúr úr LHÍ og með meistaragráðu í umhverfis- og náttúrusiðfræði við HÍ. Ég valdi nám í arkitektúr ekki einungis vegna áhuga á hönnun mannvirkja og umhverfis heldur einnig vegna þeirra miklu áhrifa sem ég tel arkitekta geta haft og ábyrgð þeirrar starfsgreinar í umhverfis- og náttúruvernd.