Um okkur

Við, Aron og Þórdís, erum grænkerar sem búa í Vesturbænum ásamt fjölskyldu Þórdísar, einum hundi og tveimur köttum. Þórdís hefur brennandi áhuga á matargerð, næringu og heilsu og Aron er ljósmyndari og  hefur áhuga á að borða það sem Þórdís eldar. Þórdís á heiðurinn af uppskriftunum á síðunni en Aron sér um ljósmyndahliðina auk þess sem hann er öflugur smakkari.

Þórdís er að læra arkitektúr við Listaháskóla Íslands og Aron útskrifaðist sem ljósmyndari síðastliðið vor og hefur einnig verið að þjálfa börn og unglinga í parkour. Við höfum mikinn áhuga á útivist en á sumrin finnst okkur skemmtilegast að ferðast um landið og fara í bakpokaferðalög, fjallahjólaferðir og útilegur ásamt hundinum okkar. Matur spilar stórt hlutverk í lífi okkar og finnst okkur ekkert skemmtilegra en að elda saman og borða góðan mat.

Við gerðumst bæði vegan árið 2016 og höfum aldrei litið til baka. Við teljum að vegan mataræði sé besta og jafnframt einfaldasta leiðin til að stuðla að betri heimi fyrir okkur, dýrin og jörðina. Eftir að við breyttum um mataræði tók við tímabil þar sem við áttum í smá vandræðum með hvað við gætum borðað. Það tímabil stóð sem betur fer stutt yfir og við tók heill heimur af uppskriftum, mat og fróðleik sem kemur okkur enn á óvart. Okkur finnst plöntumiðað fæði frábært í alla staði, hvort sem horft er til bragðlaukanna eða til heilsu, umhverfis og dýra. Með þessari síðu viljum við sýna fólki hvað það er auðvelt og skemmtilegt að elda vegan mat og að grænkerar geti vel verið sælkerar.