Glútenlausar vöfflur

Þessar glútenlausu vöfflur eru á boðstólum á heimilinu mínu hvern einasta sunnudag. Mamma elskar vöfflur en eftir að hún greindist með glútenóþol reyndist þrautinni þyngra að gera almennilegar glútenlausar vöfflur. Annað hvort var áferðin eins og gúmmí eða þær molnuðu í sundur. Þessi uppskrift er afrakstur af mikilli tilraunastarfsemi seinustu árin en við höfum komist að því að glútenlaust hafrahveiti og chiamjöl er lykillinn. Úr verða ljúffengar, glútenlausar vöfflur sem jafnvel hörðustu vöffluaðdáendur falla fyrir.

 

 

Enginn sykur er notaður í vöfflurnar heldur notum við banana. Eina mjölið í uppskriftinni er hafrahveiti sem er bráðhollt. Chiafræ eru notuð í vöfflurnar í stað eggja í en þessi furðulega ofurfæða dregur í sig vökva og myndar límkennt hlaup sem bindur deigið saman. Vöfflurnar eru því hollar, glútenlausar og sykurlausar en þrátt fyrir það eru þær ljúffengar á bragðið, stökkar að utan og mjúkar að innan.

 

 

Vöfflur eru með því heimilislegasta sem ég veit. Um leið og vöffluilmurinn berst um húsið þá finn ég fyrir einhverjum hlýleika. Vöfflur eru ein af þessum uppskriftum sem berst kynslóð af kynslóð. Hins vegar getum hvorki ég né mamma notað notað þær vöffluuppskriftir sem við höfum vanist og ákvað mamma þá að finna út úr nýrri uppskrift sem heppnaðist svona vel. Þessari uppskrift mun ég síðan halda á lofti og bjóða börnunum mínum í vöfflukaffi í framtíðinni.

 

 

Með vöfflunum er frábært að hafa vegan rjómann frá Soyatoo ásamt sultu og ferskum berjum. Svo er enn betra að drekka ískalda plöntumjólk með. Á heimilinu vekur vöfflugerð alltaf mikla lukku en á sunnudögum sest öll fjölskyldan saman við matarborðið og hámar í sig vöfflunar hennar mömmu.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 7 dl hafrahveiti
  • 1+7 dl plöntumjólk
  • 2 tsk chiamjöl
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 banani
  • 70 g vegan smjör, t.d. Smørbar

Aðferð:

  • Ef þið eigið ekki hafrahveiti er það fljótgert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í matvinnsluvél og blanda þar til það verður að fíngerðu mjöli. Í uppskriftinni eru notaðir 7 dl af hafrahveiti en það jafngildir 7 dl af haframjöli.

  • Chiamjöl er gert með sama hætti. Chia fræ eru sett í blender og blandað þar til þau verða að dufti.

  • Blandið chiamjöli við 1 dl af mjólkinni. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur og þykkna.

  • Setjið banana í blender ásamt smjörinu og chiablöndunni. Blandið vel.

  • Setjið loks hafrahveitið, vínsteinslyftiduftið og restina af mjólkinni út í og blandið í um 10 sek eða þar til það eru engir kekkir.

Gott að hafa í huga:

Hafrahveiti má skipta út fyrir ýmislegt annað mjöl og er gaman að prufa sig áfram með ólíkar tegundir af mjöli í þessari uppskrift.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift