Prótínpönnukökur

Pönnukökur eru með því betra sem ég veit og finnst mér þær ómissandi í brönsinn um helgar. Lítið mál er að gera hefðbundnar amerískar pönnukökur úr hveiti, sykri lyftidufti og plöntumjólk. Hins vegar reyni ég alltaf að gera matinn eins hollan og næringarríkann og hægt er – án þess að það komi niður á bragðinu og hef ég því þróað þessa uppskrift að prótínpönnukökum. Þessi uppskrift bragðast dásamlega en hún er einnig vegan, glútenlaus, sykurlaus og auðvitað stúfull af prótíni. Deigið er þétt í sér og helst vel saman ásamt því að lyftast vel. Pönnukökurnar eru auðvitað bestar volgar með ferskum ávöxtum, hnetum og sýrópi. Hins vegar hef ég geymt afgangspönnukökur og borðað þær daginn eftir og þær eru eiginlega bara ekkert síðri þannig.

 

 

 

Ég hef lengi leitað að vegan prótíndufti sem fer vel í maga, er hollt og bragðgott. Á kynningarfundi Veganúar í byrjun árs smakkaði ég prótínduftin frá Plantforce og varð ástfangin. Duftin eru vegan, glúteinlaus, laus við soja og hrá. Þau eru eingöngu með náttúrulegum bragðefnum og bragðbætt með stevíu. Ekki nóg með það heldur bragðast þau einnig unaðslega.  Það er því virkilega spennandi að segja frá því að við erum í samstarfi við Uglan Shop sem flytja prótínduftin til landsins og selja í vefverslun sinni og stærri Hagkaupsverslunum. Það eru svo fleiri uppskriftir með þessu prótíndufti á teikniborðinu hjá okkur Grænkerum. Vanilluduftið er í uppáhaldi hjá mér, en það er notað í þessari uppskrift.

 

 

 

 

Mér fannst mikilvægt að innihaldsefnin í uppskriftinni væru prótínrík, glútenlaus og holl og notast ég því við möndlumjöl, haframjöl og chiamjöl, en þau er auðvelt að gera með því að setja innihaldsefnin í blender og blanda þar til úr verður mjöl. Möndlur innihalda holla fitu og prótín, haframjöl er prótínríkara en flestar korntegundir og chia fræ eru stútfull af omega 3 fitusýrum, prótíni og andoxunarefnum. Einnig er banani í uppskriftinni en hann gefur sætu og bindur deigið saman. Bananar eru virkilega næringarríkir en þeir innihalda fjölda vítamína og steinefna ásamt pektíni sem er gott fyrir meltinguna.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 dl möndlumjöl (möndlur settar í blender)
  • 2 dl hafrahveiti (haframjöl sett í blender)
  • 1 msk chia-mjöl (chia fræ sett í blender)
  • 3 dl vegan mjólk, t.d. sojamjólk, möndlumjólk eða haframjólk
  • 1 skeið vanilluprótín, 20g
  • 1 lítill banani, eða hálfur stór
  • 1 msk kókosolía
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • salt, eftir smekk

Aðferð:

  • Ef þið eigið ekki hafrahveiti er það fljótgert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í matvinnsluvél og blanda þar til það verður að fíngerðu mjöli. Í uppskriftinni eru notaðir 2 dl af hafrahveiti en það jafngildir 2 dl af haframjöli.

  • Chiamjöl er gert með sama hætti. Chia fræ eru sett í blender og blandað þar til þau verða að dufti.

    Sömuleiðis mætti gera möndlumjöl í góðum blandara en möndlumjöl fæst einnig í matvöruverslunum.

  • Þegar haframjöl, chiamjöl og möndlumjöl er tilbúið eru öll hráefnin sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt.

  • Hitið góða olíu á pönnu og steikið pönnukökurnar. Þegar loftbólur eru byrjaðar að myndast og pönnukökurnar lyfta sér er þeim snúið við.

  • Pönnukökurnar eru æðislegar með ferskum berjum eða banana, sýrópi og hnetum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift