Partývefjur

Þessar vefjur eru frábærar í partý eða matarboð þar sem allir eiga að mæta með eitthvað á borðið. Vefjurnar eru súper auðveldar, bráðhollar og bestar ef þær eru gerðar daginn áður. Ég hef ósjaldan hent í nokkrar svona vefjur daginn fyrir boð, geymt í ísskáp og skorið niður rétt áður en ég mæti. Vefjurnar hafa alltaf vakið mikla lukku og klárast á örskömmum tíma. Ég get því sannarlega mælt með þeim.

 

 

 

 

 

Uppskriftin inniheldur tvenns konar vefjur. Fyrri vefjurnar, þær mexíkósku, eru smurðar með blöndu sem inniheldur m.a. vegan rjómaost, avókadó, papriku, svartbaunir og ferskt kóríander. Seinni vefjurnar, regnbogavefjurnar, eru smurðar með grænkáls-basilíku hummus og svo er litríku grænmeti raðað (jafnvel í litaröð) ofan á hummusinn.

 

 

 

 

Hvor uppskrift nægir í um 6 vefjur- eða um 40-60 stykki (eftir því hversu þykkt er skorið). Ég mæli með að útbúa vefjurnar daginn áður en á að borða þær. Best er að stafla vefjunum í heilu lagi inn í ísskáp (í lokuðu íláti). Þá verður mun auðveldara að skera þær daginn aftur og bragðið er betra. Það er líka stór kostur að geta útbúið þær daginn áður fyrir fólk eins og mig sem er alltaf á seinustu stundu á allar samkomur (ég kalla það samt að vera “fashionably late”).

 

 

 

 

 

Hummusinn sem ég bjó til fyrir regnbogavefjurnar er ótrúlega bragðgóður og ekki síður fallegur. Fyrir þá sem eru á hraðferð er hins vegar ekkert mál að nota hummus úr búð. Athugið bara að það þarf talsvert magn til að smyrja vefjurnar en mér finnst best að hafa þykkt lag af hummus.

 

Ég mæli svo með því að prófa sig áfram með þau hráefni sem eru til í ísskápnum, aðalatriðið er að vefjurnar séu litríkar og bragðgóðar.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Mexíkóskar vefjur

  • 1 dós vegan rjómaostur, t.d. Oatly
  • 1 dós vegan sýrður rjómi, t.d. Oatly
  • 8 cm púrrulaukur
  • 2-3 litríkar paprikur
  • 2 avókadó
  • 1 dós svartbaunir, skola vel
  • 2 dl gular baunir, skola vel
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 lúka ferskt kóríander
  • salt og pipar , einnig getur verið gott að setja örlítið af mexíkóskri kryddblöndu
  • 6 tortillavefjur

Regnbogavefjur

  • Grænkálshummus, uppskrift að neðan
  • 1/2 gúrka
  • 1/2 gul paprika
  • 1/2 appelsínugul paprika
  • 1/2 rauð paprika
  • 1/4 haus ferskt rauðkál
  • 6 tortillavefjur

Grænkálshummus

  • 2 dl kjúklingabaunir, ásamt fjórðungi af safanum
  • 2 msk tahini
  • 2 msk sítrónusafi
  • 3-4 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 tsk tamarisósa
  • 4 msk ólífuolía
  • 1 lúka fersk basilíka
  • 3-4 stór blöð grænkál, má nota spínat
  • 1 tsk cumin
  • salt og pipar

Aðferð:

Mexíkóskar vefjur

  • Skerið púrrulauk, paprikur og avókadó smátt niður.

  • Skolið svartbaunirnar og gulu baunirnar í sigti.

  • Blandið öllum hráefnunum saman í stóra skál og smakkið til með kryddum.

  • Smyrjið blöndunni á tortillakökurnar og rúllið upp í vefjur.

  • Setjið vefjurnar í lokað fat og geymið í ísskáp yfir nótt. Skerið þær síðan niður í um 2 cm þykkar sneiðar daginn eftir og raðið á stóran disk. Sniðugt getur verið að stilla þeim upp á rönd og stinga tannstöngli í.

Regnbogavefjur

  • Skerið grænmetið í þunnar lengjur.

  • Smyrjið hummusnum á tortillakökurnar og raðið grænmetinu ofan á, gjarnan í litaröð, og rúllið upp í vefjur.

  • Setjið vefjurnar í lokað fat og geymið í ísskáp yfir nótt. Skerið þær síðan niður í um 2 cm þykkar sneiðar daginn eftir og raðið á stóran disk. Sniðugt getur verið að stilla þeim upp á rönd og stinga tannstöngli í.

Grænkálshummus

  • Setjið sítrónusafa, tahini, kjúklingabaunir (ásamt fjórðungi af safanum) og blandið þar til silkimjúkt.

  • Bætið því næst hinum hráefnunum út í en geymið ólífuolíuna. Ef erfitt er að ná mjúkri áferð getur hjálpað að bæta við örlitlu vatni.
    Bætið olíunni við í lokin og blandið saman í nokkrar sek.

1 Comments

  • Ólöf Björnsdóttir

    05/16/2021 at 10:39 pm

    Þessar vefjur skoruðu fullt hús stiga í veislu þar sem flestir voru ekki vegan. Frábærar vefjur og ekki flókið að gera þær, takk Þórdís. Ég fékk ekki sýrðan rjóma vegan en setti þá í staðinn smá vegan rjóma út í rjómaostinn (vegan).

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift