NoMeat NoCheese flatbaka

Ef það er hægt að gera vegan meat&cheese pítsu þá held ég að grænkerum séu allir vegir færir í eldhúsinu. Ég get svo svarið það að þessi pítsa er eins og sending frá himnaríki. Hún er svo fáránlega einföld, djúsí og góð að það er eiginlega mesta furða að ég hafi ekki gert þetta löngu fyrr. Ég viðurkenni að ég tapaði mér aðeins í gleðinni og bakaði 6 svona pítsur á sama degi því ég vildi gefa öllum að smakka! Þessi pítsa klikkaði hins vegar ekki og var samdóma álit allra smakkara að þetta væri einhver allra besta pítsa sem gerð hefur verið.

 

 

 

Í pítsuna nota ég tvenns konar vegan osta og tvenns konar vegan kjöt. Ég nota heimagerða kasjúhnetuostinn minn, Oatly rjómaostinn, sojahakk (t.d. frá Anamma) og svo Grill Spiced Oumph! en það er gefur svo gott kryddbragð og kemur í staðinn fyrir pepperóní. Af því ég vil vera svo holl og græn þá setti ég að auki rauðlauk og sveppi á pítsuna og það kom mjög vel út, en má þó vel sleppa því. Pítsuna toppaði ég svo með svörtum pipar sem setur punktinn yfir i-ið.

 

 

 

Heimagerði osturinn er gerður úr kasjúhnetum og fær bragð sitt úr næringargeri, sítrónusafa, og hlynsýrópi. Galdrahráefnið er agar-agar duft sem er unnið úr sjávarþara og virkar frábærlega sem vegan þykkingarefni eða matarlím. Þegar hráefnin fyrir ostinn eru sett í blandara verður úr þunnfljótandi vökvi sem bragðast svipað og ostur. Þegar vökvinn er hins vegar hitaður að suðu virkjast agar-agar duftið og úr verður þykkur, bráðinn ostur með unaðslegri áferð. Ef osturinn er geymdur í kæli þá stífnar hann og minnir á mozzarella ost.

 

 

Ég tók nýlega upp á smávegis leti í pítsubakstri og nota núna alltaf tortillur í staðinn fyrir heimagerðan pítsubotn. Það gerir baksturinn svo einfaldan og fljótlegan og kemur alls ekki niður á bragðinu eða útlitinu. Ég mæli því með því að prófa að nota tortillukökur í staðinn fyrir pítsubotn fyrir þá sem nenna ekki að baka sína eigin botna.

Ég mæli sérstaklega með þessari pítsu fyrir þá sem eru að feta sig í átt að veganisma og sakna kannski kjöts og osts. Þá getur nefnilega hjálpað að finna vegan ost sem maður fílar og eitthvað gott vegan kjöt. Þessi uppskrift sameinar vegan osta og kjöt í eina brjálæðislega djúsí flatböku sem allir ættu að smakka.

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Ostur:

 • 1,5 dl kasjúhnetur
 • 3 dl vatn
 • 1/2 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus
 • 1-1,5 msk næringarger
 • 2 tsk sítrónusafi
 • 2 tsk hlynsýróp
 • 1 tsk agar-agar duft
 • salt

Álegg:

 • Pítsubotnar, t.d. tortilla kökur eða heimagerðir botnar
 • Pítsusósa
 • Rauðlaukur
 • Sveppir
 • Heimagerður kasjúhnetuostur, uppskrift að ofan
 • Vegan rjómaostur, t.d. Oatly
 • Sojahakk, t.d. frá Anamma eða Hälsans Kök
 • Grill Spiced Oumph!
 • Svartur pipar

Aðferð:

Ostur:

 • Setjið öll hráefnin í blandara og blandið þar til silkimjúkt (getur tekið nokkrar mínútur). Ég mæli með að smakka ostinn til og bæta við næringargeri, sítrónusafa eða hlynsýrópi eftir smekk.

 • Á þessu stigi er osturinn þunnfljótandi. Setjið ostinn í pott (gott að nota sigti ef ómaukaðar kasjúhnetur gætu leynst á botninum), hitið að suðu og hrærið vel í honum. Þegar osturinn hefur þykknað vel er hann tilbúinn til að fara á pítsuna.

Álegg:

 • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

 • Skerið rauðlaukinn og sveppina í þunnar sneiðar. Takið til það Oumph! sem þið viljið nota (u.þ.b. 50-80 g á mann) og skerið í smærri bita.

 • Smyrjið pítsubotninn (eða tortillukökuna) með pítsusósu að eigin vali. Raðið síðan sveppum og rauðlauk á botninn. Setjið því næst heimagerða ostinn, sojahakkið og oumphið á pítsuna. Setjið loks litlar klessur af rjómaostinum og kryddið með svörtum pipar.

 • Setjið pítsuna í ofninn og bakið í um 15-20 mín eða þar til osturinn hefur brúnast.

Leave a comment

Your email address will not be published.

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift