Litríkar ofurskálar

Þeir sem hafa stigið fæti inn í heim Instagram kannast eflaust við fagurlitaðar smoothieskálar sem koma í öllum regnbogans litum. Þessar skálar fá í flestum tilvikum lit sinn frá litríkum ofurduftum á borð við Acai, Spirulina, Túrmerik, Rauðrófur ofl.

 

Ég hef lengi viljað færa mig út í fagurlitaðar smoothieskálar en vildi geta keypt duftið á Íslandi. Ég hafði samband við eigendur vefverslunarinnar tropic.is sem selja kókoshnetuskálar og ofurduft frá Svíþjóð. Skemmst er frá því að segja að við fórum í samstarf og ég fékk að prófa Blátt Spirulinaduft (Blue Spirulina), Bleikt Drekaávaxtarduft (Pink Pitaya) og duft úr Acai berjum. Ég varð ástfangin af þessum fagurlituðu duftum og þið eigið eflaust eftir að sjá meira af þeim hjá okkur á næstunni.

 

 

Í fyrri skálina nota ég Blue Spirulina duft en spirulina er unnið úr blágrænum þörungum og er það einhver næringarríkasta fæða sem völ er á. Fyrir utan það að gefa dásamlega fallegan lit getur blátt spirulina gefið aukna orku og hægt á öldrun. Spirulina inniheldur mikið af vítamínumm og steinefnum ásamt prótíni og andoxunarefnum.

 

 

 

 

 

Í seinni skálina nota ég Pink Pitaya duft en það er unnið úr skærbleikum drekaávexti sem er kemur frá Asíu og Suður-Ameríku. Ávöxturinn er bráðhollur og hefur m.a. að geyma miklar trefjar, magnesíum, járn og A-vítamín og getur duftið þannig bætt húð og sjón ásamt því að styrkja ónæmiskerfið. Pink Pitaya á einnig að geta haft góð áhrif á meltinarflóruna.

 

 

 

 

 

 

Uppskriftirnar hér að neðan eru gerðar úr frosnum ávöxtum, kókosmjólk og ofurdufti. Þær eru ofureinfaldar en bráðhollar og góðar. Mikilvægt er þó að eiga góðan blender eða matvinnsluvél til að gera svona skál því ekki öll tæki ráða við frosna banana. Til að hlífa tækinu getur hjálpað að leyfa frosnu banönunum og berjunum að þiðna í nokkrar mínútur og setja meiri vökva en uppskriftin segir til um. Þeytingurinn verður aðeins þynnri fyrir vikið en það kemur ekki niður á bragðinu.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Blá ofurskál (fyrir 2)

  • 3 frosnir bananar
  • 2 dl frosin bláber
  • 1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 2-3 tsk Blue Spirulina duft

Bleik ofurskál (fyrir 2)

  • 3 frosnir bananar
  • 2 dl frosin hindber
  • 1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 2-3 tsk Pink Pitaya duft

Aðferð:

  • Leyfið banönunum og berjunum að þiðna í nokkrar mínútur til að hlífa matvinnsluvélinni/blendernum.

  • Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél/blender og blandið þar til silkimjúkt. Ef illa gengur að blanda gæti þurft meiri vökva (það fer eftir tækjum).

  • Setjið blönduna í skálar og skreytið að vild, t.d. með ferskum berjum eða ávöxtum, granóla, hnetum eða kókosflögum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift