Linsubauna bolognese

Spaghetti bolognese eða “hakk og spagettí” er vinsæll matur sem flestir kunna vel að meta og þá sérstaklega börn. Hér er uppskrift að vegan bolognese rétt þar sem “kjötsósan” er gerð úr linsubaunum og grænmeti. Linsubauna bolognese er að mínu mati mun betra en hefðbundið hakk og spagettí og auðvitað hollara enda stútfullt af fersku grænmeti og næringarríkum baunum. Þessi réttur er þar að auki sérlega einfaldur í gerð en hráefnin eru bara látin malla á pönnu í mislangan tíma.

 

 

Í uppskriftinni nota ég þurrar linsubaunir. Ég er almennt ekki nógu dugleg að nota þurrar baunir og kaupi allt of oft í baunir í dós. Linsubaunir kaupi ég hins vegar alltaf þurrar því þær þarf ekki að láta liggja í bleyti. Það tekur um 15-20 mín að sjóða rauðar linsubaunir en um 30-45 mín að sjóða grænar. Í þessari uppskrift nota ég bæði grænar og rauðar en þær rauðu eru smærri og hverfa nánast í sósuna meðan þær grænu eru bitastæðari. Fyrir þá sem eru að byrja að nota baunir getur verið sniðugt að nota eingöngu rauðar linsubaunir. Einnig má minnka hlutfall bauna í réttinum (og minnka vökva á móti) og setja smátt skorna sveppi í staðinn en það bragðast mjög vel.

 

 

Ég mæli með að nota heilhveitispaghetti eða glúteinlaust spaghetti fyrir þá sem það kjósa. Einnig kemur skemmtilega út að nota spaghetti sem er gert úr baunum (t.d. svartbaunum eða edamamebaunum) en slíkt pasta er gríðarlega prótínríkt og hollt. Það er eflaust ekki allra að borða svart eða grænt baunapasta en það venst vel og finnst mér það jafnvel betra en hefðbundið pasta. Á mínu heimili er vanalega eldaður stór skammtur af linsubaunasósunni og svo er boðið upp á þrjár tegundir af spaghettíi (venjulegt-, bauna- og glúteinlaust spaghetti).

 

 

 

 

Uppskriftin nægir fyrir þrjá til fjóra en ef það verður afgangur getur linsubaunasósan í uppskriftinni komið í staðinn fyrir kjötsósu í réttum eins lasagna. Það er því tilvalið að nýta sósuna í einhvern nýjan rétt daginn eftir. Með réttinum má bjóða upp á heimagerðan vegan parmesan ost úr valhnetum, hvítlauk og næringargeri sem er stráð yfir í lokin. Uppskriftin að honum er fengin frá maedgurnar.is en má einnig finna hér. Einnig finnst mér gott að bera réttinn fram með ferskri basilíku, kirsuberjatómötum og nýbökuðu brauði.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

(fyrir um 6)

  • 1 laukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 3 stórar gulrætur (200-250g), rifnar á rifjárni
  • 1/2 paprika, smátt skorin
  • 1 dós hakkaðir tómatar í dós
  • 1 dós tómatpúrra (70g)
  • 1,5 dl rauðar linsubaunir, þurrar
  • 1 dl grænar linsubaunir, þurrar
  • 8 dl vatn
  • 1/2 grænmetisteningur
  • 1 tsk tamarisósa
  • paprikukrydd
  • oregano
  • handfylli fersk basilíka, smátt söxuð

Aðferð:

  • Setjið lauk og hvítlauk á pönnu ásamt olíu og mýkið við lágan hita í smá stund.

  • Bætið gulrótunum út á pönnuna og steikið áfram þar til þær hafa mýkst.

  • Setjið næst linsubaunirnar, tómatana í dós, tómatpúrruna og vatn á pönnuna. Látið malla við lágan hita í um 30-40 mín með lokinu á. Bætið vatni við ef þarf.

  • Þegar um 20 mín eru eftir af eldunartíma er paprikunni bætt út í og leyft að eldast í smá stund.

  • Loks er kryddunum bætt út í ásamt grænmetisteningnum og tamari sósu. Ég mæli með að smakka blönduna til og bæta við kryddum eftir þörfum.

  • Ef blandan er laus í sér, það finnst mikið baunabragð eða baunirnar eru ekki alveg mjúkar þarf að láta þetta sjóða lengur.

Gott að hafa í huga:

  • Það má sleppa fersku paprikunni og nota t.d. meira paprikukrydd í staðinn
  • Mjög gott er að bæta skornum sveppum út í réttinn.
  • Sleppa má grænum linsubaunum og nota meira af rauðum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift