Lárperumauk

Guacamole eða lárperumauk, eins og það kallast á fallegri íslensku, er að mínu mati einhver mesta snilld sem hefur verið fundin upp í matargerð. Maukið var fundið upp af Aztekum þar sem nú er Mexíkó og er það eitt helsta einkenni mexíkóskrar matargerðar. Þetta æfaforna, fagurgræna mauk er ekki bara bragðgott heldur er það í þokkabót bæði ofureinfalt og bráðhollt.

 

Lárperumauk má nota  í hina ýmsu rétti en virkar það líka sem t.d. ídýfa með flögum eða smurálegg ofan á brauð. Ég elska heimagert „guac“ en lykillinn við að ná sem bestu bragði er að nota óskemmd, fersk avókadó. Hjá sumum tíðkast að kaupa tilbúið lárperumauk í krukkum en ég get fullyrt að heimagert er miklu, miklu betra. Ég mæli með að allir prófi að útbúa sitt eigið lárperumauk.

 

 

Avókadó eru meginuppistaðan í lárperumauki en þessi mjúki, mildi ávöxtur (já, ávöxtur) er með því hollara sem hægt er að láta ofan í sig. Avókadó eru full af hollri fitu en þau eru líka verulega prótínrík miðað við ávexti. Fyrir þá sem kjósa lágkolvetnafæði eru avókadó frábær en þau eru mjög kolvetnasnauð. Mér finnst mikilvægt að eiga alltaf til avókadó heima en þá get ég alltaf fengið mér eitthvað næringarríkt og mettandi.

 

 

Ég nota oftast matvinnsluvél til að gera lárperumauk en þá verður áferðin silkimjúk. Hins vegar á ég það til að gera lárperumauk í útilegum og finnst mér þá algjör snilld að setja mjúk avókadó í poka og kreista þau þar til þau maukast. Fyrir þá sem ekki eiga matvinnsluvél mæli ég með þeirri aðferð. Einnig er hægt að stappa þau en mér finnst það gefa sístu áferðina. Mikilvægasta hráefnið í lárperumauk, á eftir sjálfum lárperunum, er sítróna eða límóna. Avókadó njóta sín best með einhverju súru og set ég því nægan sítrónusafa í lárperumaukið mitt. Einnig finnst mér gott að setja skorna tómata og rauðlauk út í maukið en ég sleppi því samt stundum. Þegar ég á til ferskt kóríander er æðislegt að breyta til og setja saxað kóríander út í lárperumaukið. Sumir setja hvítlauk í maukið en mér finnst það ekki þurfa.

 

 

 

Ég mæli með að gera nógu stóra uppskrift en að mínu mati er aldrei of mikið af góðu lárperumauki. Þegar ég borða maukið ekki beint upp úr matvinnsluvélinni finnst mér það best með nachos flögum eða á tortillur.

 

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 4 lítil avókadó
  • 3-4 tsk sítrónusafi
  • 1 tómatur, skorinn smátt
  • 1/2 rauðlaukur, skorinn smátt
  • salt og pipar
  • ferskt kóríander, ef vill

Aðferð:

  • Setjið avókadóin í matvinnsluvél ásamt sítrónusafa og blandið þar til silkimjúkt.

  • Skerið laukinn og tómatinn smátt.

  • Bætið lauknum og tómatinum út í matvinnsluvélina ásamt salti og pipar (og kóríander ef vill) og blandið í örfáar sekúndur þannig að grænmetið blandist rétt svo saman við avókadóin en það verði eftir litlir bitar.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift