Jarðarberjaís

Ég elska ís en hef reynt að halda ísneyslu minni í hófi enda er þessi frosni réttur oft nokkuð óhollur. Það var því stórkostleg uppgötvun þegar ég komst að því að hægt er að útbúa að ís sem er bæði bragðgóður og ofurhollur.

 

Þegar frosnir bananar eru settir í matvinnsluvél þá verður til gríðarlega léttur, ljós og mjúkur ís (e. nicecream). Þennan ís má svo bragðbæta með ýmsum leiðum, t.d. með hnetusmjöri, kakó eða öðru. Í þetta skiptið þá notaði ég frosin jarðarber, kókosmjólk í dós og vanillu. Útkoman er dásamlegur, einfaldur og mildur jarðarberjaís sem allir ættu að hrífast af.

 

 

 

Til að ísinn verði sem þykkastur er mikilvægt að eiga góða matvinnsluvél. Fyrir þá sem eiga ekki mjög kraftmikla matvinnsluvél er hægt að bæta meiri vökva út í. Ísinn verður ekki eins þykkur en bragðið er mjög gott.

Ísinn sómir sér vel sem eftirréttur en passar ekki síður sem morgunmatur (enda bráðhollur og næringarríkur).

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1,5 frosinn banani
  • 2 dl frosin jarðarber
  • 1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 1/2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  • Takið banana og jarðarber úr frysti og leyfið þeim að standa við stofuhita í 5-10 mín.

  • Setjið banana í matvinnsluvél og blandið þar úr verður léttur og ljós bananaís.

  • Setjið hin hráefnin með í matvinnsluvélina og blandið þar til silkimjúkt.

  • Setjið blönduna í skálar og skreytið að vild, t.d. með ferskum berjum eða ávöxtum, granóla, hnetum eða kókosflögum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift