Jackfruit tacos

Jackfruit er ávöxtur sem ég las fyrst um fyrir tveimur árum síðan og smakkaði fyrst fyrir ári síðan. Ávöxturinn kemur frá Indlandi og er mikið notaður í asískri matargerð.  Jackfruit hefur virkilega sérstaka áferð, svona hálfgerða „pulled“ áferð og hentar því vel í stað kjöts í marga rétti.

Jackfruit ávöxturinn er gríðarlega hollur og góður fyrir heilsuna. Hann er ríkur af andoxunarefnum sem geta varið líkamann gegn krabbameini og hægt á öldrunareinkennum. Sömuleiðis er hann góður fyrir ónæmiskerfið og meltinguna. Jackfruit er einnig ríkur af ýmsum vítamínum og steinefnum og er góður fyrir sjónina, beinin og húðina. Næringarinnihald ávaxtarins er fyrst og fremst kolvetni og trefjar en hann inniheldur ekkert kólestról eða mettaða fitu.

Ég er mjög hrifin af því að nota jackfruit í mexíkóska matargerð en mér finnst mexíkósk krydd passa vel við sæta og örlítið súra bragðið af jackfruit. Það er til dæmis mjög gott að setja jackfruit út í mexókóska kjúklingasúpu en þessi uppskrift mundi henta vel í það. Uppskriftin hér að neðan er mjög einföld en ég ákvað að nota keypta taco kryddblöndu til að hafa uppskriftina sem einfaldasta.

Eins og myndin að ofan sýnir þá skar ég ávöxtinn gróft, frá miðju að enda áður en ég steikti hann. Á meðan á steikingu stóð þá reyndi ég að mauka ávöxtinn betur með steikingarspaðanum til að ná áferðinni sem sést hér á myndinni. Þannig nær kryddið líka betur að smjúga inn í ávöxtinn og áferðin verður frábær.

Ég bar jackfruit ávöxtinn fram í mjúkum taco kökum ásamt salsa sósu, avókadó, radísum, rauðlauk, Oatly sýrðum rjóma, ferskum chili og fersku kóríander. Færslan var unnin í samstarfi við Vegan búðina en ég fékk Jackfruit frá þeim til að prófa.

Verði ykkur að góðu!

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 dós jackfruit í vatni, stór dós (300 g)
  • 1/2 laukur
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 pakki taco kryddblanda
  • 1 grænmetisteningur
  • cayanne pipar, eða ferskur chili

Aðferð:

  • Skerið jackfruit ávöxtinn í þynnri báta.

  • Steikið á pönnu lauk, hvítlauk, jackfruit, grænmetistening og krydd.

  • Reynið að stappa eða skera í jackfruit ávöxtinn meðan hann er að steikjast svo áferðin verði rifin eða „pulled“. Bætið við vatni eftir þörfum.

  • Þegar áferðin er góð og kryddin hafa síast inn í Jackfruit ávöxtinn og hann hefur mýkst vel, er hann tilbúinn, tekur um 15-20 mín.

  • Berið fram í tacoskeljum með salsa sósu, avókadó eða guacamole, fersku grænmeti og Oatly sýrðum rjóma.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift