Indverskt Dal

Indverskt dal er grænmetis-baunaréttur sem er gríðarlega vinsæll hversdagsmatur í Indlandi og hefur náð mikilli útbreiðslu í öðrum löndum. Ég nota orðið “Dal” hér en einnig má rita “Daal”, “Dhal” og “Dahl”. Orðið kemur úr Hindi og notað yfir klofnar baunir og sömuleiðis þennan rétt, sem gerður er úr klofnum linsubaunum.

 

 

 

 

Dal er einn uppáhalds rétturinn minn því hann er svo hollur og bragðgóður en á sama tíma gríðarlega einfaldur og krefst lítillar vinnu. Á meðan rétturinn mallar í pottinum má svo dunda sér við að útbúa jógúrtsósu og naan brauð. Þetta er einn af þeim réttum þar sem uppskriftin er hálfgert aukaatriði og hentar rétturinn því vel til að tæma ísskápinn (og kryddskápinn). Aðalatriðið er að nóg af grænmeti, linsubaunum og kryddum sé til staðar.

 

 

 

Í uppskriftina eru notaðar rauðar linsubaunir en mér finnst best að kaupa þær þurrar, því ólíkt stærri baunum þá eru þær fljótar að mýkjast. Linsubaunir eru mjög prótínríkar, og því frábær hluti af mataræði grænkera, sem og annarra. Linsubaunir henta einnig vel fyrir þá sem eru að byrja í baunaréttum því þær eru smáar og bragðlitlar en draga í sig bragð af grænmetinu og kryddunum ásamt því að gefa réttinum þykka og mjúka áferð.

 

 

Indverskt dal er best borið fram með soðnum hrísgrjónum eða kínóa, raita jógúrtsósu, heimagerðu naan brauði og fersku kóríander. Mér finnst gott að elda mikið Dal í einu því það er hreinlega bara betra daginn eftir og hentar frábærlega í nesti.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Dal:

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauskrif
  • 1 msk ferskt engifer
  • 2 tsk garam masala
  • 1 tsk cumin
  • 1/2 tsk karrý
  • cayanne pipar, eftir smekk
  • 1/2 blómkálshaus
  • 300 g gulrætur
  • 3 dl rauðar linsubaunir, þurrar
  • 6 dl vatn
  • 1 dós kókosmjólk í dós, þykk
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 msk tómatpúrra
  • 3 tsk sítrónusafi
  • 1 tsk hlynsýróp
  • salt og pipar

Raita (jógúrtsósa):

  • 2 dl vegan jógúrt, t.d. sykurlaus sojajógúrt
  • 2 dl Oatly sýrður rjómi
  • 1/2 gúrka, rifin smátt
  • 1 hvítlauksrif
  • 2-3 tsk sítrónusafi
  • salt og pipar

Naan brauð:

  • 3 dl spelt, gróft og fínt
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 dl vegan mjólk, t.d. sojamjólk eða möndlumjólk
  • salt

Aðferð:

Dal:

  • Saxið lauk, hvítlauk og engifer smátt og mýkið í potti, upp úr olíu. Bætið garam masala, cumin, karrý og cayanne pipar út á og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  • Skerið gulræturnar og blómkálið smátt niður og bætið út í pottinn. Steikið grænmetið í nokkrar mínútur og bætið þá þurrum linsubaunum, vatni, kókosmjólk, grænmetistening og tómatpúrru í pottinn.

  • Látið blönduna malla í 30-40 mínútur eða þar til gulræturnar eru mjúkar í gegn.

  • Bætið loks sítrónusafa, hlynsýrópi og salti út í og látið malla í smá stund. Smakkið til og bætið við kryddum eftir smekk.

Raita (jógúrtsósa):

  • Rífið gúrku smátt á rifjárni og reynið að kreista vökvann frá eins vel og hægt er.

  • Pressið hvítlaukinn og blandið síðan saman öllum hráefnunum.

  • Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.

Naan brauð:

  • Blandið hráefnunum saman og hnoðið deig. Bætið við hveiti ef þarf.

  • Fletjið litlar, þunnar kökur úr deiginu með kökukefli.

  • Þurrsteikið hverja köku fyrir sig á pönnu, við nokkuð háan hita. Snúið kökunum við eftir 1-2 mín, en þá eiga kökurnar að hafa lyft sér og brúnast.

  • Staflið kökunum á disk og berið fram með dalinu. Gott er að dýfa brauðinu í ólífuolíu eða bráðið vegan smjör og sesamfræ.

1 Comments

  • Guðrún Þórarinsdóttir

    04/21/2021 at 7:57 pm

    Mjög góð uppskrift af Dhal. Takk fyrir síðuna þína. Líst vel á uppskriftirnar.
    Kveðja
    Guðrún

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift