Hátíðarhnetusteik

Stuttu eftir að ég varð vegan hélt ég að ekkert gæti komið í staðinn fyrir jóla-lambahrygginn sem var það besta sem ég fékk. Þessi hnetusteik er hins vegar alveg jafn góð, ef ekki bara miklu betri! Hún er mjög hátíðleg og bragðgóð og passar vel með brúnni sósu og sykurbrúnuðum kartöflum. Ég eldaði þessa hnetusteik fyrir síðustu jól og heppnaðist hún frábærlega og vilja foreldrar mínir fá hana aftur í ár. Fersku kryddjurtirnar koma unaðslega út og gefa steikinni hátíðlegt bragð.

 

 

Hnetusteikin er holl, góð og glúteinlaus og finnst mér hún sérstaklega skemmtileg vegna þess að öll hráefnin eru elduð saman í einum potti/pönnu. Einhverjum kann að þykja hráefnalistinn heldur langur en ég lofa að hnetusteikin er þess virði. Ekkert mál er að skipta ýmsum hráefnum út (sjá lista að neðan) en einnig er gaman að leika sér með mismunandi krydd og grænmeti. Ég mæli t.d. sérstaklega með að setja þurrkaða villisveppi (smátt skorna) og rauðvín út í blönduna. Þannig fæst enn hátíðlegra og “villtara” bragð.

 

 

 

Þegar ég bý til hnetusteik geri ég vanalega tvöfalda eða þrefalda uppskrift til að eiga í frysti. Mér finnst einnig gott að baka hnetusteikina í muffinsformum úr sílíkoni til að geta tekið litlar sætar hnetusteikur með mér í nesti. Í þetta sinn gerði ég tvöfalda uppskrift og sýna meðfylgjandi myndir því tvöfalt magn af hráefnum.

 

Mér finnst hnetusteik æðisleg á jólunum, en ég veit ekki hátíðlegri mat. Það skemmtilega við að elda sína eigin hnetusteik er að geta smakkað til og kryddað og gert jólamatinn þannig algjörlega eftir eigin hefðum og bragðlaukum.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 400 g gulrætur
  • 1 pakki sveppir
  • 200 g kartöflur
  • 200 g rauðar linsubaunir, þurrar
  • 4 dl vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 sveppateningur
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1,5 msk tamarisósa
  • 1 tsk hlynsýróp
  • 100 g hakkaðar heslihnetur
  • 1,5-2 dl haframjöl, glúteinlaust ef vill
  • 100 g pekanhnetur
  • 1 stór stilkur ferskt rósmarín
  • 1 msk ferskt timian, (garðablóðberg)
  • 2 stór blöð fersk salvía, (um 6 lítil)
  • 1/2 tsk karrý
  • salt og pipar

Aðferð:

Undirbúningur:

  • Rífið grænmetið (lauk, hvítlauk, gulrætur, sveppi og kartöflur) niður á rifjárni eða skerið smátt niður.

  • Setjið linsubaunirnar í sigti og skolið.

  • Saxið hneturnar og þurrristið á pönnu. Hrærið vel í hnetunum og passið að þær brenni ekki. Setjið þær svo til hliðar.

  • Saxið fersku kryddjurtirnar smátt niður.

Eldun:

  • Mýkið lauk og hvítlauk á stórri pönnu/potti upp úr olíu þar til laukurinn brúnast.

  • Bætið grænmetinu út í og steikið þar til sveppirnir hafa mýkst.

  • Bætið vatni og linsubaunum út á pönnuna og látið malla í 10 mín. Fylgist vel með blöndunni og hrærið í henni. Reynið að bæta ekki við meira vatni nema nauðsynlegt sé.

  • Meðan blandan mallar er grænmetis- og sveppatening bætt út í ásamt tómatpúrru, tamarisósu, hlynsýrópi og þurrkuðum kryddum (karrý).

  • Þegar 10 mínútur eru liðnar frá því að linsubaunirnar voru settar á pönnuna, er ristuðu hnetunum bætt út í ásamt fersku kryddunum. Á þessu stigi er gott að smakka blönduna til og bæta við kryddum eftir smekk. Blandan er látin malla í 5 mín.

  • Loks er haframjölinu bætt út í. Deigið á nú að vera orðið mjög þykkt og ekki á að vera hægt að hella því. Ef deigið er of blautt þarf að bæta meira haframjöli við.

  • Stórt brauðform er klætt með bökunarpappír og allt úr pottinum/pönnunni er sett ofan í formið og dreift vel úr því. Formið er klætt með álpappír og svo sett inn í ofn við 180° í klukkutíma. Síðustu 10-15 mín er álpappírinn tekinn af forminu til að baka yfirborðið.

  • Þegar hnetusteikin er komin úr ofninum er henni leyft að kólna örlítið og svo er henni hvolft á disk eða bakka.

Gott að hafa í huga:

  • Heslihnetum og pekanhnetum má skipta út fyrir aðrar hnetur eins og t.d. möndlur, valhnetur og kasjúhnetur
  • Tamari sósu má skipta út fyrir sojasósu (t.d. glúteinlausa sojasósu)
  • Fersku kryddunum má skipta út fyrir þurrkuð krydd. Ég nota oft timian, rósmarín og Lamb Islandia frá Pottagöldrum (þar er salvía í aðalhlutverki).
  • Dásamlegt er að bragðbæta blönduna með smátt skornum villisveppum og skvettu af rauðvíni.

12 Comments

  • Ólöf Rún

    12/25/2018 at 1:32 pm

    Frábær hnetusteik, auðveld og bragðgóð 👍 mæli með þessari uppskrift

  • Marta Kristín

    11/24/2019 at 9:18 pm

    Hvað er uppskrifin fyrir marga?

    1. Grænkerar

      11/24/2019 at 9:45 pm

      Uppskriftin nægir í einn hleif eins og sést á myndunum. Hnetusteikin er matarmikil og seðjandi og svona hleifur dugar líklega fyrir um 6 manns. Við höfum verið 3 að deila honum á aðfangadag og eigum vanalega um helming eftir í afgang.

      1. Marta Kristín

        11/25/2019 at 10:58 pm

        Takk fyrir greinargott svar

  • Gulla

    06/24/2020 at 12:45 pm

    Hvernig smakkast þessi köld? Myndi hún henta sem kaldur smáréttur ef hún er matreidd í möffinsformum?

    1. Grænkerar

      06/24/2020 at 12:49 pm

      Ég held að það gæti komið vel út 🙂 spurning um að hafa þá kalda sósu eða t.d. kalda sætkartöflumús ofan á.

  • Iris

    12/17/2020 at 1:25 pm

    Væri mögulegt að pakka þessari inn í smjördeig? Og áttu uppskrift að góðri sósu sem passar með steikinni?

    1. Grænkerar

      12/17/2020 at 3:46 pm

      Sæl, ég held að það gæti komið mjög vel út að pakka hnetusteikinni inn í smjördeig, ætlaði einmitt að prófa það sjálf á næstunni. Er ekki með neina uppskrift að sósu en mér finnst einfalt að nota TORO Peppersaus sem grunn (hún er nefnilega vegan) og bragðbæta hana með sveppum og grænum kryddum.

      1. Unnur

        12/17/2023 at 6:49 pm

        Má frysta steikina eftir eldun?

        1. Grænkerar

          02/11/2024 at 3:56 pm

          Já, ég á alltaf nokkra aukaskammta af hnetusteikinni í frysti.

  • þórey Sigurbjörnsdóttir

    12/16/2021 at 12:48 pm

    Virkilega góð steik 🙂

  • Sólveig

    12/21/2023 at 7:45 am

    Sú besta sem ég hef smakkað og ég tala ekki um þegar maður hefur gert hana nokkrum sinnum og gert hana að ,,sinni” með uppáhaldshnetunum o.flr. Sósan henna Ellu Stínu passar glimmrandi við þessa.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift