HangiOumph

Mörgum finnst hangikjöt ómissandi í desember og eiga eflaust flestir Íslendingar hefðir og minningar sem byggja á hangikjötsáti. Mamma er ein af þessu fólki, en hangikjöt var eitthvað það allra besta sem hún gat hugsað sér. Í ár ákváðum við mæðgurnar að láta loksins verða af því að gera vegan útgáfu af þessum íslenska jólamat. Útkoman – HangiOumph – er stórmerkileg og kom okkur virkilega á óvart. Ég er því mjög glöð að geta deilt þessari uppskrift.

 

 

 

 

Uppskriftin er tiltölulega einföld og öll hráefnin því mikilvæg. Salty&Smoky Oumph ásamt birkireyktu salti frá Saltverk gefur hangikjötsilm og bragð en rauðrófa gefur blöndunni fagurbleikan lit. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað Oumph! er þá er það sænskt sojakjöt sem er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni. Oumph! fæst í ótal bragðtegundum og er selt í frystideildum flestra matvöruverslana.

 

 

 

Ég mæli með að reyna að hafa blönduna á pönnunni sem allra þykkasta. Blandan verður misblaut svo það þarf að meta hverju sinni hversu mikið af hnetum og haframjöli er bætt út í. Uppskriftin er tiltölulega stór en hún nægir í um 12 litlar bökur eins og sjást á myndunum – eða einn stóran hleif.

 

 

 

 

Við baksturinn fyllist húsið af reyktum birkiilmi og mætti alveg halda að verið væri að sjóða hangikjöt. HangiOumphið er æðislegt með vegan jafningi, soðnum kartöflum og grænum baunum. Fjölskyldan mín hefur alltaf haft hangikjöt á jóladag og það verður því gaman í ár að geta sest niður og borðað HangiOumph sem er ekki einungis betra en hangikjöt (að okkar mati allavega) heldur líka betra fyrir heilsuna, dýrin og jörðina.

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

 • 400 g rauðrófa
 • 1,5 tsk birkireykt salt, frá Saltverk
 • 1 pakki Salty&Smoky Oumph!
 • 1 laukur
 • 200 g gulrætur
 • 400 g rófa
 • 2 tsk hlynsýróp
 • 1,5-2 dl heslihnetur, malaðar
 • 1,5-2 dl kasjúhnetur, malaðar
 • 1 dl haframjöl

Aðferð:

 • Skerið rauðrófuna í smáa teninga og leggið í eldfast mót. Dreifið olíu yfir rauðrófuteningana, dreifið birkireykta saltinu yfir og blandið vel. Bakið við 180°C í um hálftíma.

 • Rífið gulrætur og rófu á rifjárni og saxið laukinn smátt. Mýkið lauk, gulrætur og rófu á pönnu upp úr olíu. Bætið Oumphinu út í og steikið í um 10 mín.

 • Þegar rauðrófurnar eru bakaðar eru þær settar í matvinnsluvél ásamt grænmetinu og Oumphinu á pönnunni. Blandið þetta saman (gott að nota pulse stillinguna) þannig að úr verði dökkbleikt mauk, sem heldur þó nokkrum grófleika og áferð.

 • Takið nú blönduna og setjið aftur á pönnu. Steikið við miðlungshita í 5 mínútur og hrærið vel á meðan. Bætið hlynsýrópinu út í.

 • Setjið hneturnar og haframjölið í blender og blandið þar til úr verður fíngerð mylsna. Bætið hnetumylsnunni út á pönnuna og hrærið vel saman í nokkrar mínútur þar til öll blandan hefur fengið sama, dökkbleika lit og er orðin vel þykk. Athugið að blandan þornar ekki mikið í ofni svo best er að ná henni nokkuð þurri á pönnunni.

 • Þrýstið blöndunni niður í muffinsform úr sílikoni, eða mótið hleif. Bakið í ofni við 180°C í hálftíma (klukkutíma ef mótaður er hleifur).

Leave a comment

Your email address will not be published.

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift