HamborgarOumph

Hamborgarhryggur er vinsælasti jólamatur Íslendinga og eflaust mörgum sem finnst jólin ekki koma ef hamborgarhrygginn vantar. Mig langaði þess vegna að reyna að gera vegan útgáfu af þessum vinsæla hátíðarrétti. Tilraunin tókst ekkert smá vel og ég er virkilega spennt að deila þessari uppskrift með ykkur. Uppskriftin nægir í einn lítinn hleif, eins og má sjá á myndunum. Hleifurinn kláraðist mjög hratt á mínu heimili – bróðir minn hakkaði hann í sig í örfáum munnbitum – svo ég mæli jafnvel með því að tvöfalda uppskriftina.

 

 

Það frábærasta við þessa uppskrift er ekki hvað hún er holl og góð (þó það sé auðvitað stór plús) heldur er hún ótrúlega einföld og hráefnalistinn stuttur. Þegar uppskriftin var fyrst samin notaði ég Salty&smokey Oumph sem fæst því miður ekki lengur en í staðinn má nota Hangioumph frá Jömm en það gefur reykta saltbragðið sem einkennir hamborgarhrygginn. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað Oumph! er þá er það sænskt sojakjöt sem er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni. Einnig má nota óbragðbætt Oumph! (The Chunk) og bæta þá við Liquid smoke sem gefur reykt bragð.

 

Oumph! getur bæði verið í aðalhlutverki (t.d. Oumph! með brúnni sósu og kartöflum) en einnig sem hluti af lengri hráefnalista, eins og í þessari uppskrift. Mér finnst Oumph! langbesta viðbótin við vegan vöruúrval á Íslandi (ásamt Oatly) og ég er forfallinn aðdáandi.

 

 

 

Ég mæli með að reyna að hafa blönduna sem hleifurinn er mótaður úr sem allra þykkasta. Blandan á pönnunni verður misblaut svo ég ráðlegg fólki að hika ekki við að auka magnið af kasjúhnetum og haframjöli ef þörf krefur. Ég prófaði að skera rákir í hleifinn áður en ég smurði gljáanum á og það kom virkilega fallega út.

 

 

 

 

HamborgarOumphið er æðislegt með sykurbrúnuðum kartöflum, kóksósu (eða annars konar brúnni sósu), rauðkáli og sultu. Næst langar mig að útbúa vegan Waldorfasalat (mæli með) til að hafa með. Fjölskyldan mín hefur aldrei verið með hamborgarhrygg, hvorki á jólum né áramótum, en þessi uppskrift tókst svo vel að HamborgarOumphið fær klárlega sinn stað í nýjum jólahefðum fjölskyldunnar.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Hleifur

  • 1 laukur
  • 300 g gulrætur
  • 1/4 rauðkálshaus
  • 1 grænmetisteningur
  • 2 tsk. hlynsýróp
  • 1 pakki HangiOumph frá Jömm
  • 2 dl kasjúhnetur
  • 2/3 dl haframjöl, glúteinlaust ef vill

Gljái

  • 2 dl púðursykur, eða hrásykur
  • 2 msk eplaedik
  • 1 msk tómatsósa
  • 1 dl vegan rjómi, t.d. soyatoo
  • 2 tsk dijon sinnep

Aðferð:

Hleifur:

  • Rífið lauk, gulrætur og rauðkál nokkuð smátt. Skerið Oumph! einnig tiltölulega smátt.

  • Setjið grænmetið og Oumph! á pönnu og látið malla í hálftíma. Setjið grænmetistening og hlynsýróp út í og smakkið til. Bætið við vatni eftir þörfum en reynið að hafa þetta nokkuð þykkt og þurrt.

  • Þegar blandan hefur mýkst vel á pönnunni er hún sett í matvinnsluvél og blönduð í örskamma stund (gott er að nota pulse stillinguna) þar til þykkt mauk hefur myndast – en þó með smá áferð. Blandið frekar of stutt heldur en of lengi.

  • Þurristið kasjúhnetur á pönnu og setjið í blender ásamt haframjöli.

  • Blandið kasjúhnetunum og haframjölinu saman við grænmetis-oumph blönduna.

  • Nú á blandan að vera orðin mjög þykk. Leyfið henni að kólna örlítið og mótið hana svo í hleif.

  • Smyrjið ofnfat með olíu og leggið hleifinn ofan í (einnig getur verið gott að leggja smjörpappír í fatið). Fallegt er að skera rákir í hleifinn, eins og má sjá á myndum.

  • Smyrjið gljáanum yfir hleifinn og bakið í ofni við 180° í hálftíma. Í lokin má hækka hitann upp í 220° og baka í 10 mín – fylgist með svo hann brenni ekki.

Gljái

  • Bræðið púðursykur og eplaedik saman í potti  Bætið síðan tómatsósu, vegan rjóma og sinnepi út í. Hrærið vel saman og látið malla þar til blandan þykknar.

  • Ef afgangur er af gljáanum getur hann passað vel í sósu.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift