Grillað grænmeti

Þessi litríki grillréttur virkar bæði sem aðalréttur og sem meðlæti. Grænmeti er eitthvað sem allir mættu vera duglegri að borða enda stútfullt af trefjum, vítamínum, andoxunarefnum og annarri hollustu fyrir kroppinn. Því litsterkara sem grænmetið er, því betra. Sú hugmynd virðist vera langlíf að aðalréttur þurfi að samanstanda af kjöti eða fiski og að grænmeti sé fyrst og fremst meðlæti. Ég er ósammála þessu því grænmeti getur sannarlega verið mettandi auk þess sem gefur okkur góða orku og víðtækan heilsufarslegan ávinning.

 

 

Við fjölskyldan fórum til Danmerkur í sumar og leigðum bústað nálægt strandbænum Gilleleje. Þetta var meðan á hitabylgju stóð í Skandinavíu og við nutum okkar í sólbaði á daginn en grilluðum og borðuðum úti í garði á kvöldin. Í fyrstu verslunarferðinni okkar í Gilleleje þá misstum við okkur aðeins en búðin var stútfull af fersku grænmeti og ávöxtum. Við komum til baka með heilu pokana af spennandi grænmeti án þess að vita beinlínis hvað við ætluðum okkur að gera við það.

 

Við enduðum á að búa til kryddlög úr því sem við fundum í bústaðnum ásamt ferskum kryddjurtum. Síðan skárum við grænmetið niður og pensluðum með kryddleginum og pabbi sá um að grilla það á kolagrilli sem var í garðinum. Þetta var ekkert smá gott (og fallegt) og sæmdi sér vel sem léttur kvöldmatur á heitu sumarkvöldi.

 

Það má leika sér með það grænmeti sem er notað og ýmis krydd. Aðalatriðið er að grilla grænmetið á tiltölulega háum hita svo það mýkist en sé ennþá örlítið stökkt innst. Ég mæli með að raða grænmetinu fallega upp á stóran bakka og bera fram t.d. vegan tzatziki sósu með.

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Grænmeti:

  • Eggaldin
  • Rauðlaukur
  • Þistilhjörtu
  • Gulrætur
  • Strengbaunir
  • Paprika
  • Brokkólí
  • Radísur

Kryddlögur

  • 1 dl ólífuolía
  • 3 msk balsamikedik
  • 1-2 msk hlynsýróp
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 msk ferskt timian, saxað
  • 2 msk ferskt rósmarín, saxað
  • salt og pipar

Aðferð:

  • Blandið saman öllum hráefnunum fyrir kryddlöginn og leyfið honum að bíða meðan grænmetið er skorið.

  • Skerið grænmetið niður í tiltölulega stórar, þykkar sneiðar. Penslið það með kryddleginum og raðið á heitt grillið.

  • Grillið grænmetið við nokkuð háan hita þar til rákir hafa myndast á því og það er mjúkt að utan en örlítið stökkt að innan.

  • Raðið grænmetinu loks á stóran bakka og berið fram með góðri ídýfu, t.d. vegan tzatziki.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift