Glútenlaust kryddbrauð

Það er fátt sem er notalegra á haustin og veturna heldur en kanil- og negulilmurinn sem fylgir nýbökuðu kryddbrauði. Hér er uppskrift að glútenlausu, vegan kryddbrauði sem er eitthvað það allra besta sem ég hef nokkurntímann smakkað. Þrátt fyrir að innihaldsefnin séu óneitanlega ólík þeim sem við eigum að venjast kemur það ekki að sök og er brauðið mjúkt að innan með stökkri skorpu og unaðslegum kryddilm.

 

 

Í kjölfar þess að mamma greindist með glútenóþol þurfti að breyta ýmsum matarvenjum á heimilinu. Það má segja að breytingarnar hafi gengið vonum framar en stærsta áskorunin var hins vegar glútenlaus bakstur. Það er því miður þannig að margt glútenlaust hveiti hefur undarlega áferð og á glútenlaus bakstur það til að verða þurr og gjarn á að molna. Ég hef því lengi reynt að finna út úr því að baka glútenlaus brauð og kökur sem jafnast á við hefðbundinn bakstur.

 

 

Þegar ég byrjaði að nota glútenlaust hafrahveiti þá fannst mér ég komast ansi nálægt því en með því að nota einnig eplaedik næst góð og jöfn lyfting. Þessi tvö hráefni eru því gríðarlega mikilvæg. Þriðja hráefnið sem ég nýti mér oft er chia-egg en það er auðvelt að búa til með því að blanda saman chiamjöli og vökva en þá drekka chia fræin í sig vökvan og mynda slímkennt hlaup sem bindur saman þurrefnin.

 

 

Ég veit að þessi hráefni kunna að hljóma undarlega í eyrum margra en að mínu mati eru þetta lykilhráefni í hvers kyns bakstri og matargerð auk þess sem þau eru bráðholl. Ég mæli með að eiga alltaf til eplaedik en það geymist vel. Sáraeinfalt er að búa til hafrahveiti en það er gert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í blender þar til það verður að mjöli. Með sama hætti er chiamjöl gert en mér finnst gott að gera um 2-3 dl af því í einu og eiga til. Ég nota ferskar döðlur í uppskriftina en vel má nota þurrkaðar döðlur. Best er að leggja þær í bleyti í dálítinn tíma svo deigið verði ekki of þurrt.

 

Þetta kryddbrauð er glútenlaust, laust við hvítan sykur, vegan og dásamlega bragðgott. Uppskriftin er ekki mjög sæt og er tiltölulega mikið af kryddum en það finnst mér best. Þeir sem vilja hafa hana sætari geta þá bætt við meiri kókossykri eða stevíu. Ég vil geta sagt að brauðið sé gott daginn eftir en ég hef satt að segja ekki komist svo langt því brauðið klárast alltaf á nokkrum klukkutímum. Mér finnst best að borða brauðið nýbakað með vegan smjöri (ég nota smørbar) og ískaldri plöntumjólk.

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

 • 2 dl haframjöl, glúteinlaust ef vill
 • 3 dl hafrahveiti, glúteinlaust ef vill
 • 2 tsk chiamjöl
 • 1 dl döðlur, ég nota ferskar (muna að taka steinana úr)
 • 1-1,5 dl kókossykur eða döðlusykur
 • 4 dl plöntumjólk
 • 2 tsk kakó
 • 2 tsk kanill
 • 1 tsk negull
 • 1 tsk engifer
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 msk eplaedik

Aðferð:

 • Kveikið á ofninum og stillið á 180°.

 • Ef þið eigið ekki hafrahveiti er það fljótgert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í matvinnsluvél og blanda þar til það verður að fíngerðu mjöli. Í uppskriftinni eru notaðir 3 dl af hafrahveiti en það jafngildir um 3-4 dl af haframjöli.

 • Chiamjöl er gert með sama hætti. Chia fræ eru sett í blender og blandað þar til þau verða að dufti.

 • Blandið chiamjöli við 2 dl af mjólkinni. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur og þykkna.

 • Setjið döðlur (munið að taka steinana úr ef þið notið ferskar döðlur), kókos-/döðlusykur, hafrahveitið og chia-eggið í matvinnsluvél og blandið þar til döðlurnar hafa maukast. Bætið við restinni af mjólkinni.

 • Setjið því næst kryddin út í ásamt matarsóda, lyftidufti og eplaediki og setjið matvinnsluvélina af stað í nokkrar sek.

 • Hrærið loks haframjölinu varlega saman við, með sleif.

 • Setjið deigið í lítið brauðform sem er þakið með bökunarpappír eða smurt með olíu. Mér finnst fallegt að strá möndluflögum eða heslihnetuflögum yfir deigið.

 • Bakið í 50-60 mín. Passið að opna ofninn ekki á meðan.

Leave a comment

Your email address will not be published.

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift