Glútenlausar piparkökur

Piparkökur eru svo gott sem nauðsynlegar þegar dregur að jólum. Það er fátt notalegra en að finna hlýlegan kryddilminn berast úr ofninum og bragða svo á volgum, stökkum smákökunum ásamt ískaldri (vegan)mjólk. Mamma þróaði þessa uppskrift fyrir stuttu síðan og tókst ekkert smá vel. Við mælum með að eiga eina rúllu af piparkökudeigi inni í ísskáp en þá er hægt að baka nokkrar piparkökur í einu og borða þær heitar úr ofninum.

 

 

 

 

 

Lykillinn í uppskriftinni er möndlusmjörið en það gefur deginu frábært bragð og hjálpar við að líma það saman (sem er oft erfitt með glútenlausan bakstur). Einnig er notað chia-egg til að líma deigið saman, en chia-egg er gert með því að blanda saman möluðum chia-fræjum og vökva – mjög einfalt.

 

 

 

 

Ég mæli að baka piparkökurnar mjög stutt (um 5 mín), en mér finnst þær bestar þegar þær eru volgar úr ofninum og mjúkar. Ef piparkökurnar eru þykkar og bakaðar lengi þá verða þær stökkar þegar þær kólna og getur verið erfitt að borða þær. Ef kökurnar eru þunnar er hins vegar mjög gott að hafa þær stökkar.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 msk chia-mjöl, möluð chia-fræ
  • 4 msk vatn
  • 1,5 dl púðursykur
  • 2/3 dl möndlusmjör
  • 3 msk hlynsýróp
  • 50 g vegan smjör
  • 1,5 tsk engiferkrydd
  • 1 tsk negull
  • 1 tsk kanill
  • 1/4 tsk salt
  • 1 tsk matarsódi
  • 150 g glútenlaust hveiti
  • 150 g glútenlaust hafrahveiti, malað haframjöl

Aðferð:

  • Setjið chia-fræ í blender og malið. Blandið chia-mjölinu við vatn og leyfið því að þykkna (tekur 3-4 mín).

  • Setjið glútenlaust haframjöl í blender og blandið þar til fíngert mjöl myndast. Setjið það til hliðar.

  • Blandið nú saman í skál öllum hráefnunum nema glútenlausa hveitinu og hafrahveitinu.

  • Hrærið nú mjölinu saman við með sleikju og hnoðið vel saman.

  • Rúllið deiginu í sívalning og vefjið inn í smjörpappír. Geymið í kæli í klukkutíma eða yfir nótt.

  • Eftir að deigið kemur úr kæli er annarsvegar hægt að fletja það út og nota piparkökuform til að gera þunnar kökur. Hinsvegar kemur einnig vel út að skera 1 cm kökur úr sívalningnum og baka.

  • Bakið piparkökurnar í ofni við 180°C. Tíminn fer eftir stærðinni á piparkökunum og best er að fylgjast með þeim. Mér finnst best að baka piparkökurnar stutt (um 5 mín).

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift