Glútenlaust bananabrauð

Ég hef lengi leitað að hinni fullkomnu bananabrauðsuppskrift sem er holl, sykurlaus og helst glútenlaus. Um daginn átti ég til nokkra banana sem voru komnir á seinasta séns og ákvað að gera tilraun að bananabrauði. Einnig átti ég til fullt af möndlusmjöri sem ég hafði keypt á miklum afslætti vegna dagsetningar. Ég ákvað að reyna að nýta þessi hráefni sem ég átti of mikið til af og úr varð frábært bananabrauð. Því miður á ég mjög erfitt með að skrá niður uppskriftir þannig að ég vissi ekkert hvað ég hafði sett mikið af hverju í brauðið. Ég var staðráðin í því að ná að endurgera þetta frábæra brauð og fóru næstu dagar í stanslausar tilraunir en frá föstudegi til mánudags gerði ég 10 bananabrauð (ég er ekki að ýkja). Tilraunir 2 og 8 voru sambærirlegar upphaflega brauðinu en mig langaði að gera betur. Með tiilraun 10 þá kom út hið fullkomna bananabrauð, mjúkt, létt og bragðgott en einnig hollt og glútenlaust. Ég get því með sanni sagt að allar þessar tilraunir hafi verið þess virði.

 

 

Flestar uppskriftir að bananabrauði innihalda sykur, hvítt hveiti og egg (og jafnvel mjólk og smjör). Ég er ekki hrifin af neinu þessara hráefna og komst að því að þau eru algjör óþarfi. Í staðinn fyrir hvítt hveiti má nota glútenlaust haframjöl, í staðinn fyrir sykur má nota döðlur og í staðinn fyrir egg má nota chia-egg (möluð chia fræ + vökvi). Þetta brauð er virkilega hollt og bragðgott en þar að auki er það vandræðalega einfalt, enda hefði ég aldrei nennt að gera 10 tilraunir ef uppskriftin væri flókin. Uppskriftin er glútenlaus, sykurlaus, vegan og bráðholl en þar að auki er áferðin unaðsleg og bragðið líka. Ég held að þetta sé brauð sem ég muni gera oft í framtíðinni enda eitthvað sem hentar öllum.

 

 

 

Ég viðurkenni að glútenlaus bakstur á það til að að vera þurr og jafnvel molna. Mér finnst það gjarnan fylgja notkun á glútenlausu hveiti og nota ég því glútenlaust haframjöl sem ég set í blandara og bý til mjöl úr. Lykillinn við uppskriftina er chia-eggið en það bindur hráefnin vel saman. Hitt lykilatriðið er eplaedik en þannig fær brauðið góða og jafna lyftingu (engar áhyggjur, bragðið af því finnst ekki þegar búið er að baka brauðið). Ég nota möndlusmjör í uppskriftinni en mér finnst það gefa skemmtilegt bragð og áferð en það ætti ekki að saka að sleppa því. Ég mæli með að nota banana sem eru orðnir gamlir en þeir gefa best bragð. Einnig finnst mér best að nota ferskar döðlur (t.d. medjool) en vel má nota þurrkaðar döðlur. 

 

 

Fyrir mér er haustið fullkominn tími fyrir bananabrauð. Meðan gulnuð laufin fjúka um í hellidembu og roki er fátt betra en að geta verið inni í hlýjunni með bananabrauð í ofninum og kanililm sem dreifist um eldhúsið. Mér finnst brauðið best með engu nema vegan smjöri (ég nota Smørbar) og glasi af kaldri plöntumjólk. Brauðið geymist vel og er ekki síðra daginn eftir (það gerist reyndar sjaldan á þessu heimili að bananabrauð fái að líta nýjan dag).

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 3 þroskaðir bananar
  • 6-8 medjool döðlur
  • 1/2 dl möndlusmjör
  • 2 dl plöntumjólk
  • 5 dl hafrahveiti
  • 2 tsk. chiamjöl
  • 1 tsk. vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1 msk. eplaedik
  • 1-2 tsk. kanill
  • salt

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 170° á blæstri.

  • Ef þið eigið ekki hafrahveiti er það fljótgert með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í matvinnsluvél og blanda þar til það verður að fíngerðu mjöli. Í uppskriftinni eru notaðir 5 dl af hafrahveiti en það jafngildir um 5 dl af haframjöli.

  • Chiamjöl er gert með sama hætti. Chia fræ eru sett í blender og blandað þar til þau verða að dufti.

  • Blandið chiamjöli við 1 dl af mjólkinni. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur og þykkna.

  • Setjið banana, döðlur, möndlusmjör og 1 dl af plöntumjólk í matvinnsluvél. Blandið þar það eru engir kekkir.

  • Setjið næst hafrahveiti, chia-blönduna og restina af hráefnunum í matvinnsluvél og blandið í nokkrar sek.

  • Setjið deigið í 10×20 eða 10×30 cm brauðform sem er þakið með bökunarpappír eða smurt með olíu. Mér finnst fallegt að strá haframjöli yfir deigið.

  • Bakið í 50-60 mín. Passið að opna ofninn ekki á meðan.

  • Gott er að láta brauðið kólna í 20-30 mín þar til það er skorið.

Gott að hafa í huga

 

  • Medjool döðlum má skipta út fyrir ferskar döðlur eða þurrkaðar döðlur sem eru lagðar í bleyti í 1-2 klst.
  • Möndlusmjöri má sleppa (og setja 1/2 dl af olíu í staðinn).
  • Glúteinlausu haframjöli má skipta út fyrir venjulegt haframjöl.

 

2 Comments

  • Þóra Grímsdóttir

    11/07/2020 at 2:47 pm

    Sæl . Mig vantar að vita hvort þú ert með ofninn á blæstri og hvað bökunarformið er stórt.
    Með fyrirfram þökk og bestu kveðjum
    Þóra

    1. Grænkerar

      11/12/2020 at 6:54 pm

      Sæl,
      ofninn er á blæstri (bætti því inn í aðferðina). Ég nota oftast 10×20 form fyrir þetta brauð svo það verði hátt og fallegt og bbaka það í 60 mínútur en 10×30 form gengur vel, en þá er sennilega nóg að baka brauðið í 50 mínútur.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift